Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 9. ágúst 10:46

Íslandsgöngunni lokið

Þeir Guðbrandur Einarsson og Bjarki Birgisson luku í gær formlega Íslandsgöngu sinni, Haltur leiðir blindan. Það sem gerir þetta þrekvirki einstakt hjá þeim félögum er að Bjarki er hreyfihamlaður og Guðbrandur nær blindur. Það voru þreyttir en glaðir göngugarpar sem stigu síðustu skrefin inn á Ingólfstorg með vinum og vandamönnum í gær. Þeir lögðu af stað úr Reykjavík þriðjudaginn 20. Júní og lögðu að baki rúmlega 1300 km á 45 dögum . Veðrið var þeim hagstætt og móttökur afar góðar á öllum viðkomustöðum.

Meginmarkmiðið með göngunni var að vekja athygli á málefnum fatlaðra barna og barna sem eiga við erfið og langvarandi veikindi að stríða, að sýna að hægt sé að yfirvinna hindranir með réttum, hjálpartækjum, þjálfun og stuðningi og síðast en ekki síst að stuðla að samfélagi án aðgreiningar.

Ellert B. Schram forseti ÍSÍ og Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF gengu síðasta spölinn með Bjarka og Guðbrandi og afhentu þeim, ásamt Tómasi aðstoðarmanni og Sjónarhóli, viðurkennigarskildi fyrir ,,Framtak til fyrirmyndar" .

Sannarlega glæsilegur árangur hjá þeim Bjarka og Guðbrandi sem sýnir að allt er mögulegt með viljann að vopni.