Íþróttasamband Fatlaðra | miðvikudagur 30. nóvember 18:07

Aðalfundur IPC

Á aðalfundi IPC (Alþjóða Ólympíuhreyfingar fatlaðra) sem haldinn var í Peking 18. - 19. nóvember sl. voru málefni þroskaheftra íþróttamann meðal annars til umfjöllunar. Í skýrslu stjórnar IPC, sem lögð var fram á aðalfundinum, kom fram að flokkunarform það sem INAS-Fid (Alþjóðasamtök þroskaheftra íþróttamanna) ynni nú eftir teldist fullnægjandi, auk þess sem rannsóknarvinnu varðandi tengsl þroskahömlunar og íþróttalegrar getu miðaði vel áfram. Lagði stjórn IPC því til við aðalfundinn að stjórninni, í samvinnu og samráði við íþróttanefndir, yrði gert að taka endanlega ákvörðun um þátttöku þroskaheftra íþróttamanna á Ólympíumótinu 2008 eigi síðar en í júnímánuði 2006. Var tillaga þessi samþykkt og má því fastlega ætla að þroskaheftir íþróttamenn verði aftur meðal þátttakenda á Ólympíumótum fatlaðra en þeim var í kjölfar svindlmála sem upp komu í Sydney árið 2000 meinuð þátttaka í íþróttamótum sem fram hafa farið á vegum IPC.
Þau merku tímamót urðu að norðurlandabúi var nú í fyrsta sinn kjörinn í stjórn samtakanna. Þar var um um að ræða danann Karl Vilhelm Niesen. Óhætt er að fullyrða að kjör hans er mikill sigur fyrir þau málefni sem Norðurlöndin hafa barist fyrir varðandi íþróttir fatlaðra s.s. varðandi málefni þroskaheftra íþróttamanna, aukna þátttöku kvenna í íþróttum fatlaðra og síðast en ekki síst aukinn fjölda þeirra íþróttamanna sem við mesta fötlun stríða á Ólumpíumótum framtíðarinnar.
Þá tilkynnti formaður Ólympíunefndar fatlaðra í Kína að líkt og á Ólympíuleikunum 2008 yrði engra þátttökugjalda krafist á Ólympíumóti fatlaðra og að ferðakostnaður þátttökuþjóða á mótstað í Kína yrðu greiddur.