Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 5. janúar 22:15

Nýárssundmót fatlaðra barna og unglinga

Nýárssundmót fatlaðra barna- og unglinga verður haldið sunnudaginn 8. janúar n.k. í 50 m innisundlauginni í Laugardal í Reykjavík.
Upphitun hefst kl. 14:00 og mót hefst kl. 15:00.

Á þetta mót eru um 80 börn og unglingar skráð frá 6 félögum víðsvegar að af landinu, bæði aðildarfélögum ÍF og almennum sundfélögum og er þetta meðal fjölmennustu Nýárssundmóta hingað til.
Á þessu móti sem haldið hefur verið frá árinu 1984, keppa fötluð börn og unglingar 17 ára og yngri, hreyfihamlaðir, blindir/sjónskertir, heyrnarlausir/skertir og þroskaheftir.
Aukagrein, 25 metra frjálst sund fyrir allra yngstu börnin, var komið á fyrir nokkrum árum þar sem leyfð er notkun hjálpartækja, s.s. kúta.

Þess má geta að á þessu móti hefur margt af okkar besta sundfólki hafið sundferil sinn s.s. sundkonan Kristín Rós Hákonardóttir, Geir Sverrisson, Ólafur Eiríksson, Bjarki Birgisson, Gunnar Örn Ólafsson, Birkir Rúnar Gunnarsson og Sigrún Huld Hrafnsdóttir.

Verðlaun mótsins “Sjómannabikarinn” gaf Sigmar Ólason, sjómaður á Reyðarfirði til keppninnar og er hann veittur fyrir besta sundafrek mótsins samkvæmt stiga og forgjafaútreikningi.

Í tengslum við Nýárssundmótið hefur skapast sú hefð að bjóða sérstökum heiðursgesti, sem í mótslok afhendir öllum þátttakendum viðurkenningarskjöl og sigurvegaranum "Sjómannabikarinn". Heiðursgesturinn að þessu sinni er formaður Öryrkjabandalags Íslands, Hr. Sigursteinn Másson.


Skátafélagið Kópar mun standa heiðursvörð.