Íþróttasamband Fatlaðra | laugardagur 4. mars 21:16

Opinn fundur um vetraríþróttir og útivist fyrir fatlaða

Mánudagskvöldið 27. febrúar var haldinn opinn fundur um vetraríþróttir og útivist fyrir fatlaða á vegum Íþróttasambands Fatlaðra.
Fyrirlesarar voru fjórir sérmenntaðir leiðbeinendur frá Bandaríkjunum sem hafa áratuga reynslu að baki á þessu sviði. Samstarf ÍF, Vetraríþróttamiðstöðvar Islands og Challenge Aspen í Colorado hefur reynst mjög árangursríkt en samstarfið byggir á ráðgjöf, fræðslu og heimsókn kennara til Íslands og kennslu íslenskra skíðakennara og fatlaðra einstaklinga í Aspen.
Í hópnum er auk fulltrúa Challenge Aspen m.a. fulltrúi frá WinterPark í Colorado. Þessir fjórir gestir frá Aspen eru í fremstu röð leiðbeinenda á þessu sviði í Bandaríkjunum og standa m.a. að menntun þeirra sem vilja sérhæfa sig á sviði vetraríþrótta og útivistar fyrir fatlaða. Á fundinum voru auk vetraríþrótta og hefðbundinna íþróttagreina kynnt önnur tilboð s.s. klettaklifur, flúðasiglingar, hestamennska og fleira.

Sérverkefni á vegum Challenge Aspen - Tilboð fyrir bandaríska hermenn Íraksstríðsins
Athygli vakti á fundinum að sérstakt verkefni á vegum Challenge Aspen, tengist stríðinu í Írak en sett hefur verið upp sérstakt prógramm fyrir hermenn sem hafa slasast og fatlast í stríðinu. Þeir taka þátt í verkefni sem byggir á útivistartilboðum og skíðamennsku fyrir einfætta, lamaða og aðra sem á einhvern hátt þurfa sérhæfða aðstoð eða hjálpartæki. Viðtöl voru við hermennina sem töldu þetta verkefni hafa haft mikla þýðingu fyrir þeirra andlega, ekki síður en líkamlega ástand.

Leiðbeinendurnir halda námskeið í Hlíðarfjalli og opna fundi á Akureyri í samstarfi við IF og VMI þessa viku og fara erlendis 7. mars.
Umsjónarmenn á Akureyri eru Þröstur Guðjónsson 896 11 47 og
Hörður Finnbogason 8201658, vetraríþróttanefnd ÍF