Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 9. mars 16:26

Heimsókn skíðakennarana frá Bandaríkjunum

Heimsókn skíðakennarana frá Bandaríkjunum tókst mjög vel og voru þeir yfir sig ánægðir með þátttökuna í Hlíðarfjalli og dagskrána alla dagana.

Námskeið var haldið fyrir nemendur KHÍ, íþróttakennaraskor sem kynntu sér vetraríþróttir í Hlíðarfjalli og mjög ánægjulegt var að geta tengt kynningu á vetraríþróttum fatlaðra dagskrá þeirra fyrir norðan.
Í kjölfar námskeið fyrir KHÍ var haldið námskeið fyrir fatlaða einstaklinga, aðstandendur, fagfólk og starfsfólk skíðasvæða. Starfsfólk skíðasvæða, sjúkraþjálfarar, kennarar, þroskaþjálfar, iðjuþjálfar, aðstandendur og fleiri áttu góða daga í Hlíðarfjalli og var almenn ánægja með námskeiðið.
Einnig var farið í heimsókn í Mýrarhúsaskóla vegna nemanda sem þátt tók í námskeiðinu, Grensásdeild var heimsótt en 2 sjúkraþjálfarar þaðan komu á námskeiðið, fundur var með ISI og opnir fundir voru haldnir.
Einnig var fundur með Icelandair vegna hugmynda um samstarf á sviði golfíþrótta.

Þeir leiðbeinendur sem nú komu til landsins með forstjóra Challenge Aspen, eru í hópi færustu leiðbeinenda á þessu sviði í Bandaríkjunum og standa fyrir fræðslu og kennslu skíðakennara sem vilja sérhæfa sig á sviði vetraríþrótta fatlaðra. Í hópnum var m.a. leiðbeinandi sem er ein af yfirmönnum Winter Park sem er eitt stærsta skíðasvæði Bandaríkjanna. Sameiginleg þekking og reynsla þessa hóps er mjög mikil auk þess sem þetta er áhrifafólk hvert á sínu sviði og getur aðstoðað Ísland á margvíslegan hátt.

Kostnaður vegna ferðarinnar var greiddur af Íþróttasambandi Fatlaðra og Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands en aðeins var um ferðakostnað að ræða, þetta samstarf felur í sér endurgjaldslausa ráðgjöf og kennslu sem er ómetanlegt framþróun starfsins.