Íþróttasamband Fatlaðra | miðvikudagur 22. mars 00:18

Formlegt samstarf Íþróttasambands Fatlaðra og Hólaskóla, Háskólans á Hólum

Föstudaginn 17. mars var staðfest formlegt samstarf Íþróttasambands Fatlaðra og Hólaskóla, Háskólans á Hólum. Tilgangur samstarfsins er að efla og styrkja fræðslu og starfsemi á sviði reiðmennsku og reiðþjálfunar fatlaðra á Íslandi.

Íþróttasamband Fatlaðra og Hestamiðstöð Íslands á Sauðárkróki hófu samstarf árið 2001 með það að markmiði að stuðla að auknu samstarfi og fræðslu á sviði reiðmennsku og reiðþjálfunar fatlaðra.
Haldnar hafa verið tvær ráðstefnur um þessi mál á Sauðárkróki í samstarfi ÍF og HMÍ, árið 2001 og 2003 og komu leiðbeinendur frá Noregi og Englandi. Starfshópur var settur á fót til að fylgja málum eftir og hefur verið unnið m.a. að því að fá sjúkraþjálfun á hestbaki viðurkennda sem meðferðarform. Unnin hefur verið greinargerð og leitað álits Félags Sjúkraþjálfara og er málið nú til til skoðunar í Heilbrigðisráðuneytinu.

Eftir að Hestamiðstöð Íslands var lögð niður árið 2005 var ákveðið að leita eftir öðrum samstarfsaðila og var mikill áhugi innan starfshópsins að leita samstarfs við Hólaskóla. Þar fer fram öflugt starf á sviði þróunar og rannsókna auk þess sem þar fer fram menntun reiðkennara.
Heimasíða Hólaskóla. www.holar.is
Markmið er að vinna að stefnumótun og verkefnaáætlunum sem stuðla að því að Ísland komist í fremstu röð á þessu sviði í heiminum. Slíkt mótast þó allt af þeim stuðningi sem verkefnið fær í framtíðinni.

Á myndinni er starfshópurinn ásamt fulltrúum Hólaskóla.
f.v. Ásta Pétursdóttir, hjúkrunarfræðingur, Þorbjörg Guðmundsdóttir, sjúkraþjálfari, Víkingur Gunnarsson, deildarstjóri, Ingimar Ingimarsson, fyrrv. framkvstj. HMÍ, Sigrún Sigurðardóttir, reiðkennari, Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, ÍF, Eyjólfur Ísólfsson, yfirreiðkennari og tamningameistari, Guðbjörg Eggertsdóttir, sjúkraþjálfari