Íþróttasamband Fatlaðra | sunnudagur 2. apríl 22:52

Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu - Samstarf við fótaaðgerðafræðinga

Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu fóru fram í dag en verkefnið er samstarfsverkefni Special Olympics á Íslandi og Knattspyrnusambands Íslands. Umsjónaraðili Special Olympis á Íslandi er Íþróttasamband Fatlaðra.
Alls mættu til leiks um 40 keppendur frá 5 félögum, ÍFR og Ösp Reykjavík, Nes, Reykjanesbæ, Örvari Egilsstöðum og Eik, Akureyri.
KSI sá um að útvega dómara og Ólafur Kristjánsson, einn besti þjálfari Íslands, sá um að hita keppendur vel upp!
Aðalstyrktaraðili Special Olympics á Íslandi er Glitnir og Birkir Kristinsson, fyrrverandi landsliðsmaður var fulltrúi Glitnis á staðnum og afhenti keppendum verðlaun. Fulltrúi KSÍ Halldór Örn Þorsteinsson afhenti keppendum bolta frá KSÍ og UEFA í tilefni þess að Special Olympics hlaut viðurkenningu fyrir grasrótarstarf í knattspyrnu.
Mótið tókst mjög vel, mikil stemming ríkti í keppninni og ekkert var gefið eftir.
Í lokin var verðlaunaafhending og pizzuveisla auk þess sem keppendur fengu afhentar gjafir.

Úrslit voru eftirfarandi en keppt er í tveimur flokkum.

A flokkur
1. Nes 1
2. ÍFR
3. ÖSP 1
4. Ösp 2

B flokkur
Nes 2
Ösp 3
Eik

Samstarfsverkefni ÍF og Félags íslenskra fótaaðgerðafræðinga
Í tengslum við keppnina var Félag íslenskra fótaaðgerðafræðinga á staðnum og skoðaði fætur keppenda sem búið er að velja á Evrópuleika Special Olympics í Róm í haust og einnig skoðuðu þær nokkra úr hópi knattspyrnufólksins.
Samstarfsverkefni Special Olympics á Íslandi og Félags íslenskra fótaaðgerðafræðinga tengist verkefninu Healthy Athlete sem hefur verið í gangi á vegum Evópu - og alþjóðasamtaka Special Olympics. Tannlæknar, augnlæknar, sjúkraþjálfarar og fótaaðgerðafræðingar hafa boðið upp á ókeypis skoðun á Evrópu og alþjóðaleikum Special Olympics undanfarin ár.
Markmið með þessu verkefni er að minna á mikilvægi góðs eftirlits með heilsufari þroskaheftra og seinfærra einstaklinga.
Umhirða fóta og réttur skóbúnaður er ekki síst mikilvægur fyrir íþróttafólk og þetta samstarfsverkefni er mjög ánægjulegt.