Undirritaður hefur verið samstarfssamningur milli Actavis og Íþróttasambands Fatlaðra (ÍF) vegna Ólympíumóts fatlaðra í Peking árið 2008. Samningurinn er til þriggja ára og felst í honum fjárhagslegur stuðningur Actavis vegna undirbúnings og þátttöku íslensku keppendanna á mótinu. Íþróttasamband Fatlaðra hefur fylgt sömu stefnu nú og fyrir undangengin Ólympíumót fatlaðra og lagt áherslu á markvissan undirbúning sem skipulagður er í samráði við landsliðsþjálfara ÍF. Fyrir dyrum stendur þátttaka í mörgum stórum verkefnum s.s. heimsmeistaramótum í frjálsum íþróttum, borðtennis og sundi næstunni en þátttaka í verkefnum þessum er m.a. liður í langtímaundirbúningi fyrir Ólympíumótið. Frábær árangur fatlaðra íslenskra íþróttamanna á Ólympíumótunum undanfarin ár er afrakstur markvissrar vinnu þar sem allt hefur verið gert til að búa íslensku keppendurna sem best undir slík stórverkefni. Íþróttasamband Fatlaðra hefur lagt metnað sinn í að fatlaðir íþróttamenn séu landi og þjóð til sóma og með dyggum stuðningi fyrirtækja eins og Actavis er hægt að skapa þá umgjörð sem byggja má árangur á. Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður Íþróttasambands fatlaðra, segir að það sé ÍF mikið gleðiefni að svo öflugt fyrirtæki sem Actavis gerist nú einn af samstarfs-og styrktaraðilum sambandsins og ÍF ómetanleg hvatning til áframhaldandi uppbyggingar íþróttastarfs fatlaðra hér á landi. Harpa Leifsdóttir, markaðsstjóri Actavis á Íslandi, segir að samningurinn falli vel að þeirri stefnu fyrirtækisins að vera samfélagslega ábyrgt og styðja verkefni á sviði íþrótta, lista og mannúðarmála. |