Opna breska sundmótið var haldið í Sheffield í Englandi dagana 6.-11. júlí s.l. ÍF sendi á þetta mót 13 keppendur og 5 þjálfara og aðstoðarmenn. Eftirfarandi er yfirlit yfir þau íslandsmet sem sett voru á mótinu og yfir þau sem komust í verðlaunasæti en þetta mót var liður í undirbúningi íslensks afreksfólks fyrir þátttöku annarsvegar í Heimsmeistaramótinu í sundi sem fram fer í S-Afríku í desember n.k. og hinsvegar fyrir evrópumeistaramót þroskaheftra í sundi sem fram fer í Búdapest í ágúst n.k. Embla Ágústsdóttir, flokki S3 /SB3 vann gullverðlaun í 50 m bringusundi og setti jafnframt íslandsmet er hún synti á tímanum 1:59,70. Í 50 m skriðsundi vann Embla til silfurverðlauna er hún synti á tímanum 1:51,21 ásamt því að setja íslandsmet en hún hafði áður sett íslandsmet í greininni er hún synti í undanrásum á tímanum 1:53,40 . Embla setti síðan íslandsmet í 100 m skriðsundi er hún synti á tímanum 3:48,00. Sonja Sigurðardóttir, flokki S5 vann til gullverðlauna er hún synti 50 m baksund á tímanum 0:55,96 ásamt því að setja íslandsmet. Sonja lenti síðan í þriðja sæti í 50 m skriðsundi er hún synti á tímanum 0:50,16 og setti í leiðinni íslandsmet í greininni. Einnig lenti hún í þriðja sæti í 100 m skriðsund á tímanum 1:51,84 og setti íslandsmet Kristín Rós Hákonardóttir, flokki S7/SB7 sigraði í 100 bringusundi, 50 m skriðsundi, 100 m baksundi og 100 m skriðsundi. Kristín hafnaði síðan í 2. sæti í úrslitum í 50 m skriðsundi og lenti í 3. sæti í úrslitum í 100 m bringusundi. Eyþór Þrastarson, flokki S11 sigraði í 400 m skriðsundi og lenti í 2. sæti í 100 m baksundi. Guðrún Lilja Sigurðardóttir, flokki S9 hafnaði í 2. sæti í 400 m skriðsundi Hulda Hrönn Agnarsdóttir, flokki S14 hafnaði í 2. sæti í 400 m skriðsundi Gunnar Örn Ólafsson, flokki S14 hafnaði í 3. sæti í 200 m fjór sundi og einnig lenti hann í 3. sæti í 100 m flugsundi |