Evrópuleikar Special Olympics 2006 fara fram í Róm, dagana 30. september til 6. október. Leikarnir eru fyrir ungmenni á aldrinum 12- 21 árs 25 íslenskir keppendur taka þar þátt i boccia, fimleikum, frjálsum íþróttum, keilu og sundi. Alls telur íslenski keppnishópurinn 36 manns með þjálfurum í hverri grein auk fararstjóra. Special Olympics samtökin leggja mikla áherslu á samstarf við aðstandendur og 50 manna hópur aðstandenda fór til Rómar til að fylgjast með leikunum. Fjölskyldufulltrúi Special Olympics á Íslandi er Camilla Th, Hallgrímsson, varaformaður ÍF og hún er með íslenska fjölskylduhópnum í Róm. Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður ÍF verður nokkra daga í Róm og alls eru því um 90 Íslendingar í Róm í tengslum við leikana. Þess má geta að Glitnir er bakhjarl Special Olympics á Íslandi og hefur gert sambandinu kleift standa svo myndarlega að þátttöku Íslands í þeim glæsilegu leikum sem Special Olympics samtökin standa að fyrir þroskahefta einstaklinga. Íslenski hópurinn, keppendur, þjálfarar og fararstjórar bjó tvo daga fyrir mótið í vinabæ Íslands, Fiuggi. 12 þjóðir bjuggu í Fiuggi fyrir leikana og var haldið sameiginlegt skemmtikvöld fyrir þessar þjóðir þar sem þátttakendur hittust og skemmtu sér saman. Mörg ungmenni í íslenska hópnum eru að fara til keppni erlendis í fyrsta skipti og þurfa að takast á við ýmis verkefni sem fylgja slíkum ferðalögum. Keppni er hafin í öllum greinum en fyrstu dagana er undankeppni sem felst í því að samræma úrslitakeppni fyrir þá sem eru jafnir að getu í hverri grein. Mjög strangar reglur gilda varðandi niðurröðun í úrslit og árangur í úrslitum verður að vera í samræmi við árangur í undankeppni. Þannig er unnt að samræma keppni og gera úrslitariðla jafna og spennandi. |
Allir eiga því möguleika á verðlaunum, jafnt þeir getumeiri sem getuminni. Gull, silfur og brons eru veitt fyrir fyrstu þrjú sæti en aðrir fá áprentaða borða í ákveðnum lit fyrir hvert sæti ofar en þriðja sæti. Þetta fyrirkomulag er þess eðlis að allir upplifa sig sem sigurvegara og mikil stemmning ríkir í íslenska hópnum nú þegar verðlaunaafhending er hafin. Evrópuþjóðir taka þátt í Evrópuleikum en þó er ein undantekning á þessum leikum. Einn helsti stuðningsmaður Special Olympics vegna leikanna 2006 er Kaka, knattspyrnumaðurinn frægi frá Brasilíu sem spilar með AC Milan. Hann samþykkti að taka þátt í kynningarmyndbandi fyrir leikana með því skilyrði að Brasilía fengi að senda þangað keppendur. Það var samþykkt og raunin varð sú að hann kostar sjálfur keppnisferð sundliðs Brasilíu á leikana en liðið býr á hóteli með íslenska hópnum. Íþróttasamband Fatlaðra er umsjónaraðili Special Olympics á Íslandi en þessi samtök sem stofnuð voru af Kennedy fjölskyldunni árið 1968 verða öflugri með hverju ári. Timothy Kennedy Shriver, sonur Eunice Kennedy er fulltrúi fjölskyldunnar á leikunum og tekur m.a. þátt í verðlaunaafhendingu. Það er öllum ljóst að þessi samtök hafa notið í ríkum mæli þeirra áhrifa sem Kennedy fjölskyldan hefur enn í dag. |