Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 12. apríl 17:56

Góðir gestir á Íslandi dagana 4. - 7. apríl

Dagana 4.-7. apríl voru staddir hér á landi fulltrúar frá borginni
Newry, á Írlandi. Árið 2003 verða alþjóðaleikar Special Olympics,
haldnir í fyrsta skipti utan Bandaríkjanna og munu þeir fara fram í
Dublin á Írlandi. 'I tengslum við alþjóðaleikana 1995 og 1999 var sett
á fót verkefni, þar sem hverju landi var úthlutað vinabæ, þar sem
þátttakendur bjuggu í nokkra daga fyrir leikana. Sama mun verða á
Írlandi og fór úthlutun fram við hátíðlega athöfn, en fjölmargir bæir
sóttu um að verða vinabæir landanna.
Mikill metnaður ríkir í Newry, með að skipuleggja móttöku íslenska hópsins sem allra best og tilkynnt var í vor að sérstök sendinefnd myndi heimsækja Ísland í tilefni þessa verkefnis. Samkvæmt upplýsingum frá
gestunum, komust færri en vildu í þessa ferð en alls var hópurinn 14 manns. Auk borgarstjóra og fulltrúa úr borgarstjórn Newry, voru í hópnum fulltrúar undirbúningsnefndar, framkvæmdastjóri fréttablaðs
staðarins og ljósmyndari, sem sendi myndir og fréttir frá heimsókninni, jafnharðan til Írlands

Hópurinn fór m.a. í heimsókn í Öskjuhlíðarskóla, þar sem miklar umræður urðu um gildi slíkra skóla og einnig var farið í heimsókn í Skálatún, þar sem fylgst var með því starfi sem fram fer þar og heimilisfólk sýndi handverk o.fl. Einnig var kíkt á ungbarnasundið sem vakti mikla athygli gestanna.
Fulltrúar Reykjavíkurborgar tóku á móti hópnum í ráðhúsinu, þar sem m.a. var farið í skoðunarferð auk þess sem Steinunn Valdís Óskarsdóttir, upplýsti gesti um ýmislegt varðandi stjórnkerfið í borginni. Móttaka
var í boði menntamálaráðherra í Borgartúni en þar tóku Reynir Karlsson, íþróttafulltrúi ríkisins og Erlingur Jóhannsson, formaður íþróttanefndar ríkissins og rektor KHÍ, íþróttakennaraskorar á Laugarvatni á móti gestunum.

Fundur var haldinn með stjórn Special Olympics á Íslandi og Íþrótta og 'Ólympíusamband Islands var heimsótt, þar sem Líney Rut Halldórsdóttir, upplýsti írsku gestina um ýmis málefni tengd íþróttahreyfingunni á Íslandi.
Gestirnir fylgdust með Íslandsmóti ÍF sem fram fór um helgina í sundi, borðtennis, bogfimi og lyftingum og vakti það mikla athygli þeirra að sjá alla fötlunarflokka, á sameiginlegu íþróttamóti, en uppbygging ÍF og samtenging starfsemi Special Olympics við annað íþróttastarf fatlaðra, vekur alltaf mikla
athygli erlendis. Reglur alþjóðasamtaka SOI, kveða á um að skilgreina eigi Special Olympics í hverju landi sem sjálfstæð samtök. Ísland hefur fengið ýmsar undanþágur allt frá upphafi aðildar, árið 1989, en
grundvöllur þess er fyrst og fremst að SOI geti treyst því að málefni Special Olympics vegi þungt í heildarstarfinu og uppbyggingin sé í þágu íþróttafólksins.
Heimsóknin frá Írlandi tókst í alla staði mjög vel og það er ljóst að íslenski hópurinn sem heimsækir Newry, sumarið 2003 mun fá hlýjar og góðar móttökur.
Reiknað er með að alls fari um 50 manna hópur á leikana á Írlandi árið
2003.