Stjórn Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC) ákvað nýverið að aflétta ekki því banni sem sett var á þroskahefta íþróttamenn vegna svindlmálanna sem upp komu á Ólympíumótinu í Sydney árið 2000! Strjórn Íþróttasambands fatlaðra harmar þessa ákvörðun og finnst hún röng en kannski er eðlilegt að líta aðeins nánar á ástæður þessarar ákvörðunar IPC. Til að skilja þessa ákvörðun verður eins og að ofan greinir að líta aftur til Ólympíumótsins sem haldið var í Sydney árið 2000. Þá urðu forystumenn íþrótta fatlaðra í heiminum að viðurkenna fyrir sjálfum sér og umheiminum að lið Spánverja í körfuknattleik þroskaheftra, liðið sem vann til gullverðlauna á mótinu, tefldi fram leikmönnum sem ekki reyndust þroskaheftir! Málið var afhjúpað af spænskum blaðamanni, sem skrifaði grein í spænskt dagblað og upplýsti hversu auðvelt það hefði verið að komast í ólympíulið Spánar í flokki þroskaheftra. Enginn hefði kannað hvort einstaklingar úr röðum þroskaheftra næðu hinni svokölluðu minnstu fötlun! Skrif þessa blaðamanns voru mikið áfall fyrir trúverðugleika íþrótta fatlaðra - án efa hugsuðu ýmsir að ef þetta reyndist unnt í flokki þroskaheftra þá væri slíkt án efa unnt í öðrum fötlunarflokkum. Ljóst var að IPC yrði að grípa í taumana sem var gert með því að setja keppnisbann á ALLA þroskahefta íþróttamenn í keppnum sem IPC stóð fyrir þar til Alþjóðasamtök þroskaheftra íþróttamanna (INAS-Fid) hefðu komið flokkunarmálum síns fólks á hreint. ![]() ![]() Að ofansögðu má ljóst vera að enn er langt í land a.m.k. að mati IPC. Endalausar deilur IPC og INAS-Fid um "keisarans skegg" hafa skaðað íþróttastarf þroskaheftra víðs vegar um heim. Eigi vitræn lausn að finnast í þessu máli er ljóst að slíkt gerist einungis með samráði og í samvinnu við forsavarsmenn hinna ýmsu íþróttagreina er fatlaðir leggja stund á. Skoðun stjórnar Íþróttasambands Fatlaðra er og hefur verið að IPC geri meiri kröfur til INAS-Fid en annarra alþjóðasamtaka fatlaðra íþróttamanna og slíkt er hvorki sanngjarnt né réttlátt. Nú eru sex ár liðin frá því að bann á þátttöku þroskaheftra tók gildi og sex ár eru langur tími í íþróttum - nú er mál að linni. |