Stjórn Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC) ákvað nýverið að aflétta ekki því banni sem sett var á þroskahefta íþróttamenn vegna svindlmálanna sem upp komu á Ólympíumótinu í Sydney árið 2000! Strjórn Íþróttasambands fatlaðra harmar þessa ákvörðun og finnst hún röng en kannski er eðlilegt að líta aðeins nánar á ástæður þessarar ákvörðunar IPC. Til að skilja þessa ákvörðun verður eins og að ofan greinir að líta aftur til Ólympíumótsins sem haldið var í Sydney árið 2000. Þá urðu forystumenn íþrótta fatlaðra í heiminum að viðurkenna fyrir sjálfum sér og umheiminum að lið Spánverja í körfuknattleik þroskaheftra, liðið sem vann til gullverðlauna á mótinu, tefldi fram leikmönnum sem ekki reyndust þroskaheftir! Málið var afhjúpað af spænskum blaðamanni, sem skrifaði grein í spænskt dagblað og upplýsti hversu auðvelt það hefði verið að komast í ólympíulið Spánar í flokki þroskaheftra. Enginn hefði kannað hvort einstaklingar úr röðum þroskaheftra næðu hinni svokölluðu minnstu fötlun! Skrif þessa blaðamanns voru mikið áfall fyrir trúverðugleika íþrótta fatlaðra - án efa hugsuðu ýmsir að ef þetta reyndist unnt í flokki þroskaheftra þá væri slíkt án efa unnt í öðrum fötlunarflokkum. Ljóst var að IPC yrði að grípa í taumana sem var gert með því að setja keppnisbann á ALLA þroskahefta íþróttamenn í keppnum sem IPC stóð fyrir þar til Alþjóðasamtök þroskaheftra íþróttamanna (INAS-Fid) hefðu komið flokkunarmálum síns fólks á hreint. Það sem IPC lagði fyrst og fremst áherslu á var að samstaða næðist um skilgreiningu á minnstu fötlun þroskaheftra íþróttamanna. Eftir miklar umræður var ákveðið að ein þeirra mælieininga sem notuð yrði við þessa skilgreiningu væri að greindarvísitala (IQ) viðkomandi íþróttamanns væri ekki hærri en 70. Við hér á Íslandi, og reyndar á Norðurlöndunum öllum, erum fyrir mörgum árum hætt að nota greindarvísitölu sem hina einu skilgreiningu á þroskahömlun - til þess eru aðrar aðferðir notaðar þó svo að greindarmat sé hluti af greiningunni. Þrátt fyrir ýmis vandamál sem þessi krafa IPC hefur skapað okkur hér á landi höfum við uppfyllt hana varðandi okkar þroskaheftu afreksmenn og þeir því að fullu gjaldgengir hvað þetta varðar. Annað sem IPC hefur krafist er að fyrir liggi skrifleg yfirlýsing og staðfesting á því að þroskahömlun hafi áhrif á getu viðkomandi íþróttamanns. IPC hefur til dæmis sett upp sem dæmi og sett spurningamerki við hvort þroskahömlun minnki getu þessara einstaklinga í 100 m hlaupi. Standa þeir þar ekki jafnfætis ófötluðum þar sem greinin, að þeirra mati, krefst ekki mikillar tækni? Aftur á móti liggi það ljóst fyrir að þroskaheftur einstaklingur eigi erfitt með að ná sama árangri og ófatlaðir í 1500 m hlaupi þar sem sú grein krefst mikillar tæknilegrar útfærslu! Að mati IPC þarf því að vega og meta þau áhrif sem þroskahömlun hefur á hinar ýmsu íþróttagreinar. Það þriðja sem IPC hefur krafist af hálfu íþróttahreyfingar þroskaheftra (INAS-Fid) er að ferli kærumála varðandi flokkun sé óyggjandi. INAS-Fid hefur lagt fram tillögu um að kærur sem upp kunna að koma séu meðhöndlaðar þannig að yfirvöld viðkomandi lands sendi gögn til IPC sem sýna fram á hvernig að þroskamati viðkomandi einstaklings var staðið. Slíkt ferli tekur tíma og er á skjön við kæruferli annarra fötlunarhópa þar sem nefnd sérfræðinga endurflokkar viðkomandi einstakling "á staðnum" þ.e. á því móti sem viðkomandi íþróttamaður tekur þátt. Að ofansögðu má ljóst vera að enn er langt í land a.m.k. að mati IPC. Endalausar deilur IPC og INAS-Fid um "keisarans skegg" hafa skaðað íþróttastarf þroskaheftra víðs vegar um heim. Eigi vitræn lausn að finnast í þessu máli er ljóst að slíkt gerist einungis með samráði og í samvinnu við forsavarsmenn hinna ýmsu íþróttagreina er fatlaðir leggja stund á. Skoðun stjórnar Íþróttasambands Fatlaðra er og hefur verið að IPC geri meiri kröfur til INAS-Fid en annarra alþjóðasamtaka fatlaðra íþróttamanna og slíkt er hvorki sanngjarnt né réttlátt. Nú eru sex ár liðin frá því að bann á þátttöku þroskaheftra tók gildi og sex ár eru langur tími í íþróttum - nú er mál að linni. |