Aðalfundur INAS-FID (Alþjóðasamtaka þroskaheftra íþróttamanna) var haldinn í Túnis 20. - 21. apríl sl. Samhliða aðalfundinum var haldin ráðstefna sem m.a. fjallaði um framtíðarsýn INAS-FID s.s. fyrir hvað samtökin stæðu, flokkunarmál og á hvern hátt að verkefnum þeirra skyldi staðið. Fulltrúar Íslands á fundinum voru þeir Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður ÍF og Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri afrekssviðs ÍF, en hann sér m.a. um skráningarmál þroskaheftra gagnvart INAS-FID. Einnig sat fundinn Þórður Árni Hjaltested, ritari stjórnar ÍF sem jafnframt situr í stórn Evrópudeildar INAS-FID. |
Mikil samstaða ríkti á fundinum þar sem m.a. var samþykkt að samtökin sæktust eftir áramhaldandi aðild að IPC (Alþjóðaólympíuhreyfingu fatlaðra) með sömu réttindum og skyldum og aðrir fötlunarflokkar sem og að óska eftir áframhaldandi samvinnu við Special Olympics samtökin um ýmis þau mál er lytu að íþróttum þroskaheftra. Nýr formaður INAS-FID var kosinn Sir Bob Price frá Englandi og aðrir í stjórn Bengt Lindstedt, varaformaður frá Svíþjóð, Karon Nicol, framkvæmdastjóri frá Englandi og Katalin Gruis, gjaldkeri frá Ungverjalandi. Á fundinum tóku Englendingar við rekstri skrifstofu INAS-FID en rekstur hennar hafði áður verið í höndum Svía. Voru Svíum þökkuð vel unnin störf á þeim miklu umbrotatímum sem verið hafa síðan árið 2000 þ.e. frá því að þroskaheftum íþróttamönnum var vísað úr keppnum á vegum IPC. Á myndinni sést Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður ÍF ásamt nýkjörnum formanni INAS-FID Sir Bob Price. |