Sjúkraþjálfun á hestbaki - loksins viðurkennt meðferðarform á Ísland Þriðjudaginn 24. apríl 2007 staðfesti Heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, reglugerð sem staðfestir sjúkraþjálfun á hestbaki sem viðurkennt meðferðarform. Heilbrigðisráðherra hefur í samvinnu við Félag íslenskra sjúkraþjálfarafélag unnið að breytingum á reglugerðum í þeim tilgangi að heimila sjúkraþjálfurum gegn ákveðnum skilyrðum að nýta hesta í meðferð. Þessi samþykkt er mjög þýðingarmikil fyrir alla þá sem geta nýtt slíka þjónustu. Þetta mál hefur verið eitt helsta baráttumál starfshóps sem stofnaður var á ráðstefnu Íþróttasambands Fatlaðra og Hestamiðstöðvar Íslands á Sauðárkróki árið 2001. Þar var boðað til ráðstefnu fyrir alla þá sem áhuga höfðu á reiðþjálfun og reiðmennslu fyrir fatlaða og alls mættu um 50 manns, fagfólk á sviði heilbrigðis-, félags- og menntamála, reiðkennarar, söðlasmiðir auk fjölda áhugafólks um þetta málefni. Leiðbeinandi kom frá endurhæfingarmiðstöðinni, Beitostolen í Noregi og árið 2003 var haldin önnur slík ráðstefna þar sem leiðbeinendur komu frá Diamond Center í Bretlandi. Árið 2005 var hestamiðstöð Íslands lögð niður og Íþróttasamband Fatlaðra leitaði þá samstarfs við Háskólann á Hólum sem hefur sýnt frumkvæði á ýmsum sviðum. Starfshópurinn hélt fund á Hólum þar sem lagður var grunnur að samstarfi og er stefnt að því að áfram verði haldið að þróa þau málefni sem tengjast reiðþjálfun og reiðmennsku fatlaðra. Á fyrstu ráðstefnu ÍF og HMÍ árið 2001 kom skýrt fram að sjúkraþjálfun á hestbaki sem viðurkennt meðferðarform var talið forgangsverkefni og helsta baráttumál. Talið var eðlilegt að Ísland yrði þátttakandi í því þróunarstarfi sem á sér stað á þessu sviði erlendis, ekki síst þar sem íslenski hesturinn er talinn henta mjög vel í slíkri þjálfun. Sjúkraþjálfarar í starfshópnum, Guðbjörg Eggertsdóttir og Þorbjörg Guðlaugsdóttir hafa unnið ötullega að því að fylgja eftir því verkefni sem nú er í höfn í samstarfi við Félag íslenskra sjúkraþjálfarafélag. Fjölmargir fleiri aðilar hafa sýnt málinu stuðning og aðstoðað við að ýta því áfram á síðustu árum. Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra hefur styrkt fulltrúa starfshópsins til ráðstefnu á þessu sviði erlendis og hefur sýnt málinu áhuga frá upphafi. Lykilatriði er þó að heilbrigðisráðherra Siv Friðleifsdóttir sýndi málinu stuðning í verki með undirskrift sinni þriðjudaginn 24. apíl sl. Starfshópur Íþróttasambands Fatlaðra og Háskólans á Hólum vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem unnið hafa að framgangi þessa máls. [fleiri myndir má finna á www.123.is/if] |