Íþróttasamband Fatlaðra | miðvikudagur 17. apríl 08:42

Hulda Pétursdóttir Íslandsmeistari á Íslandsmóti BTÍ

Nýlega fór fram Íslandsmót Borðtennissambands Íslands (BTÍ), en nokkrir fatlaðir íþróttamenn voru þar meðal þátttakenda.
Að vanda stóðu þau sig með miklum sóma og varð Hulda Pétursdóttir, íþróttafélaginu Nes Íslandsmeistari í 1. flokki kvenna. 9 keppendur kepptu í hennar flokki en Hulda vann úrslitaleikinn 3-2 í hörkuleik en hún vann oddalotuna 12-10.
Þetta er mjög góður árangur hjá henni og sýnir að fatlaðir íþróttamenn eiga í mörgum íþróttagreinum fullt erindi á mót ófatlaðra. Geir Sverrisson frjálsíþróttamaður hefur í gegnum tíðina sýnt það á hinum ýmsum mótum sem haldin hafa verið á vegum FRÍ og í vetur hafa fatlaðir borðtennismenn tekið stórstígum framförum og sýnt svo ekki verður um villst að þeir eigi fullt erindi á mót þeirra bestu hjá BTÍ.
Alls fengu fatlaðir íþróttamenn 4 verðlaun á mótinu. Í 2. flokki kvenna varð Guðrún Ólafsdóttir í 3.-4. sæti af 7 keppendum.
Í 2. flokki karla varð Viðar Árnason í 3.-4. sæti af 42 keppendum. Í tvíliðaleik kvenna urðu Gyða Guðmundsdóttir og Áslaug Hrönn Reynisdóttir í 3.-4. sæti af 7 pörum en þær töpuðu fyrir Íslandsmeisturunum þeim Halldóru Ólafs og Lilju Rós Jóhannesdóttur í undanúrslitum."