Líkt og undanfarin tvö ár fer Visa Paralympic Cup fram í Manchester í Englandi. Til móts þessa er boðið öllum bestu íþróttamönnum heims úr röðum fatlaðra þar sem keppt er í hjólreiðum, hjólastólakörfubolta, frjálsum íþróttum og sundi. Til mótsins var stofnað til að bjóða fötluðum afreksíþróttamönnum upp á hágæða keppni á árunum milli Ólympíumóta sem haldin eru á fjögurra ára fresti. Það er íþróttasamband fatlaðra í Bretlandi sem sér um framkvæmd mótsins sem fram fer dagana 7. - 13. maí n.k. með fjárhagslegum stuðningi frá Visa International . Breska sjónvarpstöðin BBC mun sýna beint frá keppninni 13. maí n.k. kl. 15:45 auk þess að dreifa samantekt frá helstu afrekum mótsins til um 150 landa víðs vegar um heiminn. Tveimur íslenskum afreksmönnum var boðin þátttaka í mótinu, þeim Eyþóri Þrastarsyni sem keppir í sundi og Jóni Oddi Halldórssyni sem keppir í frjálsum íþróttum. Því miður gat Jón Oddur ekki þekkst boð þetta en Eyþór verður meðal keppenda þar sem sundkeppnin fer fram laugardaginn 12. maí þar sem keppni í undanriðlum hefst kl. 10:00 og úrslitasundin kl. 15:00. Eyþór Þrastarson, sem er aðeins 15 ára gamall, keppir í flokki blindra. Hann þreytti frumraun sína á Heimsmeistaramóti fatlara sem fram fór í Suður-Afríku í desember sl. og verður nú í Manchester meðal besta afreksfólks fatlaðra í heiminum - sannarlega mikill heiður fyrir þennan unga dreng. |