Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 11. maí 08:41

Sundkarnival í Laugardalslaug

Í tengslum við undirskrift samstarfsamnnings Símans og Sundsambands Islands, stóðu starfsmenn Símans fyrir n.k. sundkarnivali í Laugardalslauginni þriðjudaginn 7. maí frá 1400 - 1700. Settar voru upp sérstakar stöðvar þar sem starfsmenn gátu safnað armböndum og var ákveðinn litur fyrir hverja stöð.
Markmið þeirra var að safna sem flestum armböndum en hvert armband staðfesti ákveðna upphæð sem Síminn mun leggja fram til stuðnings fötluðu sundfólki í röðum ÍF.
Sú ákvörðun starfsfólksins að láta upphæð sem safnast renna til fatlaðs sundfólks er mjög ánægjuleg og fatlað sundfólk sem aðstoðaði við afhendingu armbandanna skemmti sér konunglega þennan dag með starfsfólki Símans. Mjög mikil þátttaka var meðal starfsmanna og verður heildarupphæð staðfest á næstu dögum.
Dagskráin var mjög vel skipulögð, allir starfsmenn fengu gjafir við komu í sundlaugina og mikil stemming ríkti á staðnum
Fjölmargt var í boði m.a. sá Inga Maggý Stefánsdóttir um björgunarsund, Örn Arnarson kenndi sundtækni, Rakel "Harasystir" stjórnaði sundleikfimi og í lokin var boðsund þar sem miklir sundhæfileikar komu í ljós meðal starfsmanna
Samkvæmt tillögu sundnefndar ÍF verður sú upphæð sem safnast nýtt til kaupa á sundbekk, sem sérhannaður er til æfinga fyrir sundfólk. Nánari ákvörðun verður tekin þegar upphæð liggur fyrir en slíkir bekkir hafa reynst gríðarlega mikilvægir í þjálfun sundfólks.
Sundsamband Íslands aðstoðaði fulltrúa Símans við skipulag þessa starfsmannadags og á því stóran þátt í þessu verkefni.
Íþróttasamband Fatlaðra þakkar starfsfólki Símans ómetanlegan stuðning og velvilja í garð fatlaðs sundfólks.
Sundsamband Íslands fær innilegar þakkir fyrir ómetanlegt samstarf.