Erna Friðriksdóttir frá Egilsstöðum hefur verið mjög dugleg að nota skíðasleða fyrir hreyfihamlaða og er búin að ná góðum tökum á sleðanum. Hún býr á Egilsstöðum og stundað skíði fyrir austan þegar tækifæri hefur verið til. Erna kom á fyrsta námskeiðið sem Íþróttasamband Fatlaðra og Vetraríþróttamiðstöð Íslands á Akureyri héldu í samstarfi við Challenge Aspen og mætti aftur í janúar sl. þegar annað námskeið var haldið á Akureyri. Þar mætti ein af yfirmönnum Winter Park, Beth Fox sem hafði mikinn áhuga á að byggja upp samstarf við ÍF og VMÍ í svipuðu formi og verið hefur með Challenge Aspen. Þetta samstarf er mjög mikilvægur þáttur í þróunarstarfi á sviði útivistartilboða og nú þegar hafa tveir Íslendingar farið til Winter Park til að kynna sér tilboðin sem þar eru til staðar. Ernu Friðriksdóttur var á námskeiðinu í vor boðið að koma og stunda skíði í Winter Park í vetur. Hún þáði boðið og var nokkra mánuði í Winter Park við æfingar eftir áramót. Guðný Bachmann þroskaþjálfi fór til Winter Park í kjölfar námskeiðsins á Akureyri og var þar í nokkrar mánuði í vetur. Hún er nú aftur komin til Winter Park að kynna sér almenn útivistartilboð fyrir fatlaða en starfið er bæði sumar og vetur. Erna sendi nokkrar myndir frá ferðinni en þess má geta að skíðakennarar í Winter Park hafa hrósað Ernu mikið og telja hana mikið efni í góða skíðakonu. |
|