Þann 16. maí var haldinn fundur í Mosfellsbæ, þar sem rætt var um möguleika á því að efla tækifæri fyrir fatlað fólk í Mosfellsbæ, til þátttöku í íþrótta og tómstundastarfi. Fulltrúar ýmissa íþróttagreina innan Aftureldingar, Hestamannafélagsins Harðar, Golfklúbbsins Kjalars, Björgunarsveitarinnar Kyndils og Skátafélagsins, Mosverja mættu á fundinn. Einnig mættu á fundinn fulltrúar bæjarins og foreldrar fatlaðra barna. Fundurinn var haldinn í kjölfar fundar sem Sigurður Guðmundssyni, íþróttafulltrúi Mosfellsbæjar, boðaði til 25. febrúar sl. með fulltrúa Íþróttasambands Fatlaðra. Á fundinum var einnig félagsráðgjafi í Mosfellsbæ, Silja Þorsteinsdóttir. Á fundinum 16. maí, var staðfest að Hlynur Guðmundsson, hefur verið ráðinn til þess að stýra verkefni sem miðar að því að aðstoða fötluð börn og ungmenni til þess að taka virkan þátt í íþrótta- og tómstundastarfi í Mosfellsbæ. Þetta verkefni felur í sér að fötluð börn og ungmenni, geti valið íþróttagrein eða frístundatilboð eins og þeirra jafnaldrar, með stuðningi bæjarfélagsins, en samþykkt hefur verið að veita ákveðinni upphæð frá bæjarkerfinu í þetta verkefni, m.t.t. liðveislu og aðstoðar við þjálfun fatlaðra. Ákveðið var að setja á fót undirbúningsnefnd, sem mun marka línur varðandi framhald starfsins í samvinnu við Hlyn Guðmundsson. Í stað þess að setja á fót sérstakt íþróttafélag fyrir fatlaða var ákveðið að fara þessa leið, í samvinnu við þá aðila sem málinu tengjast. Nefndin ásamt Hlyni Guðmundssyni, er með yfirumsjón á málinu og verður tengiliður við ÍF varðandi íþróttatilboð og málefni sem varða íþróttir fatlaðra. Íþróttafélög fatlaðra sem starfa víða um land, hafa verið hvött til þess að taka upp aukið samstarf við almenn íþróttafélög, varðandi þær greinar sem ekki eru í boði á vegum félaganna. Meginmarkmið er að fatlaðir einstaklingar geti valið að stunda íþróttagrein, hvort sem hún er í boði innan aðildarfélaga ÍF eða á vegum almennra félaga. Samstarf er nauðsynlegt, sérstaklega m.t.t. þess að nokkur félög bjóða aðeins upp á eina til tvær greinar. Þetta tilraunaverkefni, er sett af stað með stuðningi forsvarsfólks íþrótta og tómstundastarfs almennt og því verður spennandi að sjá hvernig það þróast. Aðaláhersla er lögð á að á að miða þarf fyrst og fremst við hvern einstakling og að hér sé um að ræða verkefni sem mun taka tíma að þróa. |