Aðalfundur Nord-HIF (Íþróttasambanda fatlaðra á Norðurlöndum) var haldinn í Tuulusu í Finnlandi 17. - 19. ágúst sl en fund þennan sátu f.h. ÍF þeir Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður og Ólafur Magnússon, framkvæmdstjóri fjármála- og afrekssviðs. Nord-HIF samtökin voru stofnuð hér á landi 1979 og halda fundi árlega, til skiptis á Norðurlöndunum auk þess sem framkvæmdastjórar landanna hittast á fundum einu sinn á ári. Skiptast löndin á að fara með formennsku og skrifstofu samtakanna og þar með að koma fram fyrir hönd þeirra í hinum ýmsu málum sem tengjast íþróttum fatlaðra á Norðurlöndum. Hvert land fer með formennsku í Nord-HIF þrjú ár í senn og á aðalfundinum í ár tóku Færeyingar í fyrsta skipti við skrifstofu samtakanna, en undangengin þrjú ár hafa Norðmenn gengt formennsku. Á fundum Nord-HIF, sem ávallt fara fram á skandinavísku, er fjallað um þau mál sem orðið geta íþróttum fatlaðra og fötluðu íþróttafólki til framdráttar hvort heldur er á norrænum eða alþjóða vettvangi og hafa Norðurlöndin þannig verið leiðandi í stefnumótun íþrótta fatlaðra á alþjóða vettvangi. Á aðalfundinum í ár voru samþykkt félagsgjöld aðildarlandanna til næstu þriggja ára, tekin fyrir málefni sem tengjast íþróttastarfi fatlaðra s.s. Norðurlandamót og barna og unglingastarf sem og norrænt samstarf í tengslum við þátttöku landanna í Ólympíumóti fatlaðra 2008. Einnig voru til umfjöllunar hin ýmsu mál sem tekin verða fyrir á aðalfundi IPC (Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra) og afstaða Norðurlandanna til þeirra en aðalfundur IPC fer ram í Kóreu í nóvembermánuði nk. Þannig var samþykkt að Ísland, f.h. Norðurlandanna, legði fram tillögu fyrir aðalfund IPC varðandi lausn á málefnum þroskaheftra íþróttamanna sem hafa ekki tekið þátt í mótum á vegum IPC síðastliðin sjö ár. Þá voru málefni hinna ýmsu alþjóðasamtka fatlaðra s.s. INAS FID (íþróttasamtök þroskaheftra afreksmanna), IBSA (íþróttasamtök blindra) sem og og Special Olympics samtakanna kynnt. Á myndinni sjást Jógvan Jensen, formaður færeyska sambandsins t.v. og Niels Nattestad nýr framkvæmdastjóri Nord-HIF t.h. |