Keppni heldur áfram í öllum greinum, nokkrir hafa keppt til úrslita og aðrir hefja úrslit í dag. Misjafnt er eftir greinum hvað keppnisdagar eru margir, flestar greinar standa yfir allt mótið þar sem tíma tekur að flokka niður eftir árangri. Einstaka greinar standa bara yfir einn dag eins og lyftingar en þar eru engin undanúrslit, aðeins úrslitakeppni m.t.t. þyngdarflokks. Í frjálsum íþróttum var í gær hlaupið í undanrásum þó skráðir keppendur séu aðeins þrír eins og í 400 m hlaupi í aldursflokki Helgu Helgadóttur. Fyrirkomulag er því eins og áður er komið fram með öðrum hætti en þekkist á hefðbundnum íþróttamótum og á verðlaunahafar fleiri hlutfallslega en á öðrum mótum. Verðlaun streyma nú heim með keppendum, bæði peningar fyrir fyrstu þrjú sætin og verðlaunaborðar fyrir sæti 4. - 8. Verðlaunapeningar eru eftirsóknarverðari en verðlaunaborðarnir en enginn lætur það á sig fá og allir fagna því sem kemur í hús. |
Logi Bergmann Eiðsson og Steingrímur Þórðarson hafa verið viðstaddir leikana og hafa tekið fjölda viðtala við keppendur ásamt því að taka myndir frá keppninni og opnunarhátíðinni. Þeir fóru m.a. á kínverskt heimili með fararstjórum og aðstoðarmanni íslenska liðsins þar sem rætt var við húsráðendur og heimilið skoðað. Þetta heimili var tengt vinabæjarheimsókn íslenska hópsins en nokkur heimili buðu hópnum heim í mat og skemmtun. Á heimilinu sem sjónvarpsmenn heimsóttu bjó Mr. Wong, Kínameistari í blaki árið 1959, núverandi þjálfari blakliðs kvenna , 50 ára og eldri en hann var m.a. að undirbúa för liðsins á alþjóðablakmót í Bandaríkjunum. |