Lionsklúbburinn Hængur á Akureyri, hefur staðið fyrir íþróttamóti fyrir fatlaðra, Hængsmótinu í 20 ár og var tuttugasta Hængsmótið haldið um síðustu helgi á Akureyri. Keppt var í bogfimi, borðtennis, boccia og lyftingum. Í tengslum við mótið var haldið Íslandmót ÍF í boccia, sveitakeppni. Mótið var sérlega glæsilegt og mikið var lagt í mótssetningu og lokahóf. Á lokahófinu var Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands sérstakur heiðursgestur og á myndinni sést hann ávarpa gestina. Þar sagði hann m.a. að það hefði verið honum sérstök og eftirminnileg lífsreynsla að vera viðstaddur alþjóðaleika Special Olympics í Bandaríkjunum árið 1999. Framtak Hængsmanna hefur vakið mikla athygli en frá því þeir hófu framkvæmd og skipulagningu íþróttamóts fyrir fatlaða fyrir 20 árum, hafa fleiri klúbbar fylgt í kjölfarið og staðið fyrir slíkum viðburðum í sínum heimabæ. Það er mikilvægt fyrir íþróttahreyfinguna að hafa slíka liðsmenn til staðar og sérstaklega ánægjulegt í dag þegar sífellt reynist erfiðara að fá fólk til sjálfboðaliðastarfa innan íþróttahreyfingarinnar. |