Í nóvember sl. fór formaður Blindrafélagsins, Halldór Guðbergsson, ásamt fimm einstaklingum frá Íslandi til Noregs til að kynna sér tiltölulega nýja íþróttagrein sem aðlöguð hefur verið að þörfum blindra og sjónskertra, en það er fótbolti. Alþjóðaíþróttasamband blindra (IBSA) stendur fyrir miklu kynningarstarfi um allan heim til að vinna að útbreiðslu íþróttagreinarinnar. Alþjóða knattspyrnusambandið styrkir verkefnið og er það liður í að gera knattspyrnuna að íþróttagrein sem allir geta stundað, ekki bara afreksfólk. Norska knattspyrnusambandið var gestgjafi á þessu námskeiði sem ætlað var þjálfurum og dómurum. Þátttakendur voru frá fjórum löndum, Noregi, Finnlandi, Íslandi og Færeyjum. Eins og áður sagði fóru sex einstaklingar frá Íslandi, þrír frá Íþróttasambandi fatlaðra, einn frá Knattspyrnusambandinu og tveir frá Blindrafélaginu. Hér á eftir verður íþróttagreininni lýst stuttlega og hvernig hún getur nýst við almenna þjálfun blindra og sjónskertra. Knattspyrna fyrir blinda og sjónskerta var lögleg íþróttagrein á síðasta ólympíumóti fatlaðra sem fram fór í Aþennu fyrir þremur árum. Þá var einungis keppt í flokki alblindra og fengu karlmenn einir að spila, en íþróttagreinin er ekki mikið stunduð af konum eins og staðan er í dag. Þau lönd sem hafa langa knattspyrnuhefð eru komin lengst í greininni og standa t.d. Braselía, Argentína og Spánn framalega. Það er mat undirritaðs að íþróttagreinin muni ná mikilli útbreiðslu á næstu árum og þessi vinsælasta íþróttagrein í heimi verði stunduð af blindum og sjónskertum um allan heim, sérstaklega í fjölmennari samfélögum. En út á hvað gengur leikurinn? Í stuttu máli svipar knattspyrnu fyrir blinda og sjónskerta til innanhússknattspyrnu, sömu almennu leikreglur gilda en einnig hefur nokkrum reglum verið bætt við þannig að blindir og sjónskertir geti stundað greinina. Leikurinn hefur verið aðlagaður að þörfum þeirra. Völlurinn er jafn stór og handboltavöllur og meðfram hliðarlínunum er eins metra hár veggur eða girðing þannig að leikmenn hlaupi ekki út af vellinum. Fjórir útispilarar eru í hvoru liði og fimmti leikmaðurinn í hvoru liði er sjáandi markmaður sem einnig hefur það hlutverk að leiðbeina liðinu í varnarleik. Þrír aðstoðarmenn leiðbeina blindu spilurunum inni á vellinum og veita þeim ýmsar upplýsingar meðan á leik stendur, t.d. hvar þeir eru staddir á vellinum og hvað er langt í andstæðing. Eins og áður sagði stýrir markmaður liði sýnu í vörn og þjálfari stýrir liðinu á miðjusvæði vallarins og aðstoðaþjálfari er fyrir aftan mark andstæðinganna og stýrir liðinu í sókninni, lemur t.d. í markstangir til að láta leikmenn vita hvar markið er staðsett. Mörkin sem notuð eru eru jafnstór og handboltamörk. Boltinn er svipaður að stærð og venjulegur fótbolti með hristum sem gefa frá sér hljóð þegar honum er sparkað. Nú eru sjálfsagt einhverjir lesendur að velta því fyrir sér hvort ekki sé mikið um meiðsli og hvort blindir útispilarar séu ekki sífellt að hlaupa hver á annan. Því er til að svara að lítið er um meiðsli og pústra því reynt er að tryggja öryggi leikmanna með ýmsum hætti, t.d. verða leikmenn að láta vita ef þeir ætla að reyna nálgast boltann með því að segja spænska orðið “voy” þannig að sá sem er með boltann veit að einhver er að reyna að nálgast hann. Önnur mikilvæg regla er sú að leikmenn mega ekki keyra hausinn á undan sér, þeir verða alltaf að vera í beinni stöðu. Þá gegna aðstoðarmennirnir mikilvægu hlutverki við að forða slysum. Í alþjóðakeppnum er leiktíminn 2x25 mínútur og í þessari íþróttagrein, líkt og í tennis, er mikilvægt að það sé algjör þögn meðal áhorfenda meðan boltinn er í umferð þannig að leikmenn geti einbeitt sér að leiknum. Þjálfararnir, sem stóðu fyrir þessu námskeiði, sögðu að þetta væri ein besta íþróttagrein sem blindir gætu stundað. Hún þjálfar t.d. rúmskynjun, snerpu og mörg önnur atriði sem nýtast blindum og sjónskertum afar vel í daglegu lífi. Greinin er því alveg kjörin til að þjálfa hreyfifærni og umferli blindra og sjónskertra einstaklinga. Á meðan á leiknum stendur er mikið áreiti í gangi, leikmenn þurfa að nýta heyrnina vel og vera fljótir að bregðast við. Mikill hraði er í leiknum og menn þurfa að leggja sig alla fram við að hlusta t.d. eftir því hvar boltinn er, taka við fyrirmælum frá aðstoðarmönnum, vera í góðu sambandi við liðsmenn sína og einnig að fylgjast með andstæðingum. Þetta er einmitt það sem blindir þurfa að einbeita sér að þegar þeir fara á milli staða, t.d. yfir stórar umferðargötur. Í stuttum skrifum er erfitt að lýsa greininni svo vel sé, en áhugasömum er bent á heimasíðu IBSA: www.ibsa.es Einnig er hægt að nálgast upplýsingar hjá Blindrafélaginu og hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Ef áhugi er á eru þeir sem fóru til Noregs tilbúnir að koma t.d. í skóla og halda kynningar. Það er skoðun undirritaðs að íþróttakennarar gætu jafnvel brotið upp hefðbundna íþróttakennslu í skólum með því að bjóða upp á fótbolta þar sem allir væru með augnbindi og stæðu því jafnt að vígi hvað sjónina varðaði. Séu íþróttakennarar með blindan eða alvarlega sjónskertan nemanda myndi aðlagaður fótbolti fyrir blinda gefa nemandanum tækifæri til að taka þátt á jafnréttisgrundvelli. Halldór Sævar Guðbergsson formaður Blindrafélagsins |