Nýlega endurnýjuðu Icelandair og Íþróttasamband fatlaðra samstarfssamning um ferðir íþróttafólks sambandsins á flugleiðum Icelandair. Samningurinn, sem nær til ársins 2010, felur meðal annars í sér að allt íþróttafólk og aðrir sem ferðast á vegum sambandsins til og frá Íslandi fljúgi með Icelandair á hagstæðustu fargjöldum sem bjóðast. Einnig fær Íþróttasamband Fatlaðra ákveðna styrktarupphæð árlega greidda inn á viðskiptareikning sinn auk gjafabréfa í hlutfalli viðskipta sinna við Icelandair. Icelandair hefur allar götur síðan 1994 verið einn af af aðalsamstarfs og stuðningsaðilum Íþróttasambands fatlaðra og þannig gert fötluðu íþróttafólki kleift að halda hróðri Íslands á lofti víða um heim. Í tilefni af undirritun samningsins þakkaði Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður Íþróttasambands fatlaðra, fyrirtækinu fyrir áralangt ánægjulegt samstarf. Slíkt væri mikil viðurkenning á starfi sambandsins í þágu íþrótta fatlaðra. Fyrir Íþróttasamband fatlaðra væri mjög mikilvægt að svo öflugt fyrirtæki sem Icelandair sæi sér fært að koma til móts við þarfir sambandsins með svo myndarlegum hætti sem raun ber vitni. Þorvarður Guðlaugsson, sölustjóri sem undirritaði samninginn fyrir hönd Icelandair lýsti yfir mikilli ánægju með samniginn. Það væri Icelandair afar mikilvægt að taka virkan þátt í að styðja við íþróttalíf landsins og væri samningur þessi hluti af þátttöku félagsins í stafi íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Icelandair væri heiður sýndur með því að fá tækifæri til þess að taka þátt í því að efla íþróttir fatlaðra hér á landi Á meðfylgjandi mynd eru Þorvarður Guðlaugsson, svæðisstjóri íslenska sölusvæðisins hjá Icelandair (t.h.) og Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður Íþróttasambands fatlaðra við undirritun samningsins. |