Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 21. febrúar 13:09

Úthlutun úr Afrekskvennasjóði Glitnis og ÍSÍ

Þann 20. febrúars sl. var úthlutað úr Afrekskvennasjóði Glitnis og ÍSÍ í þriðja sinn. Sjóðurinn hefur það að markmiði að styðja við bakið á afrekskonum í íþróttum og gera þeim betur kleift að stunda sína íþrótt og ná árangri. Í stjórn sjóðsins sitja þær Svafa Grönfeldt, Vanda Sigurgeirsdóttir og Vala Flosadóttir.

Að þessu sinni voru tvær og hálf milljón króna til úthlutunar sem renna til sjö glæsilegra íþróttakvenna. Úthlutunin tekur mið af því að í ár er Ólympíuár og margar íþróttakonur að keppast við að tryggja sér þátttökurétt á leikunum. Alls bárust 97 umsóknir í Afrekskvennasjóðinn að þessu sinni og nam heildarfjárhæð þeirra um 150 milljónum króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í september 2008.

Meðal styrkþega nú voru sundkonurnar Embla Ágústsdóttir og Sonja Sgurðardóttir úr Íþróttafélagi Fatlaðra í Reykjavík. Á myndunum sem fylgja fréttinni má sjá þær stöllur Emblu og Sonju sem og styrkþegana alla eða fulltrúa þeirra ásamt sjóðsstjórninni, Ólaf Rafnsson forseta ÍSÍ og Birnu Einarsdóttur Framkvæmdastjóra Viðskiptabankasviðs Glitnis.

Í umsögn sjóðsstjórnar um Emblu og Sonju segir:

Embla Ágústsdóttir sundkona úr íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík. Embla hefur verið í mikilli sókn undanfarna mánuði og á Íslandsmetið í öllum þeim sundgreinum sem hún keppir í. Sem stendur er Embla í 6. sæti á heimslistanum í 50 m. flugsundi og því 19. í 50m. skriðsundi. Framundan er æfingaferð til Danmerkur og keppni á opna breska meistaramótinu í maí. Ferðirnar verða notaðar sem liður í undirbúningi þess að tryggja sér sæti á Ólympíumóti fatlaðra sem fram fer í september í Peking.

Sonja Sigurðardóttir sundkona úr íþróttafélagi fatlaðra Reykjavík. Sérgreinar Sonju eru skriðsund og baksund, í þeim greinum á hún öll Íslandsmet í sínum flokki. Sonja hefur nú þegar tryggt þér þátttökurétt í 50 m. baksundi á Ólympíumóti fatlaðra sem haldið verður í Peking í september. Í baksundi skipar hún 9. sæti heimslistans. Auk þess er Sonja í 22. sæti í 50 m. skriðsundi og 23. sæti í 100 m. skriðsundi á listanum. Framundan er æfingaferð til Danmerkur og keppni á opna Breska meistaramótinu.