Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 2. maí 23:17

Ráðstefna um gildi íþrótta fyrir börn með sérþarfir og fyrir einstaklinga og samfélög

Forsetafrú Íslands, frú Dorrit Moussaieff var heiðursgestur ráðstefnunnar í boði hennar hátignar Sheikha Mozah sem er eiginkona furstans eða Emírsins í Qatar.
Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics og fræðslu og útbreiðslusviðs ÍF fékk boð um að koma á ráðstefnuna sem fagaðili með frú Dorrit Moussaieff en einnig var Helga Þórarinsdóttir, deildarstjóri Skrifstofu Forseta Íslands með í för. Þetta var mikill heiður fyrir Íþróttasamband Fatlaðra og Special Olympics á Íslandi en m.a. var lögð fram í Qatar greinargerð um íþróttastarf fatlaðra á Íslandi.
Ráðstefnan var haldin í Shaffallah Center þar sem börn og unglingar með sérþarfir stunda nám og fá margvíslega þjálfun hjá sérfræðingum á hverju sviði. Hreyfiþjálfun og íþróttastarf er mjög stór þáttur í daglegum verkefnum nemenda sem byrja hvern dag með æfingum. Fulltrúar á ráðstefnunni fóru í skoðunarferð um Shaffallh Center og kynntu sér starfsemina en þessi miðstöð hefur vakið alþjóðaathygli fyrir metnaðarfullt og árangursríkt starf. www.shaffallah.org.qa

Fjölbreytt dagskrá ráðstefnunnar byggðist á því að þar var saman komið fólk með ólíkan bakgrunn en sameiginlegt markmið, sem var að ræða gildi íþróttastarfs út frá mismunandi sjónarhornum. Eitt athyglisverðasta erindi ráðstefnunnar var erindi Cherie Blair, lögfræðings sem fjallaði um íþróttastarf út frá almennum mannréttindum og vísaði í samning UN 30. grein um réttindi fatlaðs fólks til íþrótta og tómstundastarfs. Hún lagði áherslu á að baratta fyrir mannréttindum snerust ekki aðeins um að koma auga á það sem betur má fara heldur einnig það sem er hefur sameinað ólíkar þjóðir og einstaklinga. Hún tók dæmi um hvernig íþróttastarf hefur skapað slíkt samstarf og unnið gegn fordómum.

Rætt var um gildi þess að börn með sérþarfir fengju næga hreyfiþjálfun og íþróttakennslu, ekki aðeins vegna líkamlegrar endurhæfingar, heldur ekki síður vegna þess sem fram kom um jákvæð áhrif íþróttastarfs á aukna sjálfsmynd, sjálfstraust og félagsleg tengsl.

Rætt var um þá þróun sem verið hefur í gangi varðandi skóla án aðgreiningar og blöndun í skólastarfi og fram kom að löndin glíma við sameiginleg vandamál. Talið var mikilvægt að valkostir væru til staðar og að undirbúningur væri nægur, jafnt hvað varðar sérmenntun starfsfólks í skólum og aðlögun þeirra sem málið varðar. Fram kom að félagsleg einangrun barna með sérþarfir getur ekki síður skapast í umhverfi þar sem blöndun á að vera lykilþáttur.
Sama gildir með íþróttastarf, fólk vildi að valkostir væru til staðar og að sérúrræði væru í boði fyrir fatlaða s.s. Paralympics og sérstök íþróttafélög og samtök. Lykilþáttur var að valkostir væru til staðar fyrir þá sem málið varðar en ákvarðanir væru ekki teknar alfarið af öðrum aðilum.

Stór þáttur ráðstefnunnar var kynning á verkefninu Autism Speaks en verkefnið byggir á öflun upplýsinga og söfnun fjármagns til rannsókna á einhverfu og örsökum hennar.

Kynnt voru tilboð sem Íslendingar geta nýtt sér og athyglisverðar rannsóknir en nánari upplýsingar eru í skýrslu sem gerð var um helstu efnisþætti, sjá tilvísun í skýrslu.