Íþróttasamband Fatlaðra | mánudagur 25. maí 23:52

Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu 2008

Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu fóru fram í knattspyrnuhöllinni á Akranesi í dag laugardaginn 24. maí.

Sturlaugur Sturlaugsson, formaður Íþróttabandalags Akraness bauð keppendur velkomna og setti mótið. Ingibjörg Harpa Ólafsdóttir, íþróttakennari stjórnaði upphitun og Þórður Guðjónsson, knattspyrnumaður afhenti verðlaun. Dómarar voru frá knattspyrnudómarafélagi Akraness en helstu skipuleggjendur á Akranesi voru Guðlaugur Gunnarsson frá KSÍ og Jón Þór Þórðarson íþróttafulltrúi ÍA.

Keppt var í tveimur styrkleikaflokkum og konur og karlar kepptu saman í liði. Allir aldursflokkar kepptu saman og allir höfðu gaman að þó keppnisskapið sé í öndvegi hjá flestum, mismikið þó. Þátttakendur voru frá íþróttafélögunum Ösp Reykjavík, Nesi Reykjanesbæ, Þjóti Akranesi og Suðra Selfossi. Mikil áhersla er lögð á að allir þeir sem áhuga hafi geti verið með , hvort sem um er að ræða byrjendur eða lengra komna og því eru lið mjög fjöbreytileg á þessum mótum.

Úrslit voru eftirfarandi;

Styrkleikaflokkur 1
Ösp 1
Nes A+
Nes A

Styrkleikaflokkur 2
Ösp 2
Ösp 3
Suðri

Þetta var samstarfsverkefni Íþróttasambands Fatlaðra, Knattspyrnusambands Íslands, Íþróttabandalags Akraness og íþróttafélagsins Þjóts á Akranesi. Undanfarin ár hefur Íþróttasamband Fatlaðra og Knattspyrnusamband Íslands staðið fyrir slíkum leikum innanhúss og utanhúss í samstarfi við aðildarfélög ÍF.

Samstarf ÍF og KSÍ hefur miðað að því að efla áhuga fatlaðra á knattspyrnuiðkun og koma af stað umræðu um gildi þess að fatlaðir geti stundað knattspyrnu, hvar á landi sem þeir búa. Markmið er að knattspyrnufélög taki þátt í þessu samstarfi og bjóði upp á æfingar fyrir fatlaða og/eða skapi þeim skilyrði til að taka þátt í æfingum með sínum jafnöldrum.

Stefnt er að því að ÍA standi að knattspyrnuæfingum fyrir fatlaða í haust í samstarfi við íþróttafélagið Þjót.

Nánari upplýsingar um samstarf IF og KSÍ gefur Guðlaugur Gunnarsson gulli(hjá)ksi.is
Myndir frá mótinu hafa verið settar á myndasíðu ÍF www.123.is/if