Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 4. júlí 11:25

Glitnir áfram aðalbakhjarl Special Olympics á Íslandi

Glitnir og Íþróttasamband Fatlaðra undirrituðu á dögunum samstarfssamning sem felur í sér áframhaldandi stuðning Menningarsjóðs Glitnis við starfsemi sambandsins og Special Olympics á Íslandi en bankinn hefur verið aðalstyrktaraðili Special Olympics á Íslandi frá árinu 2001.

Starfsemi Special Olympics á Íslandi hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum og skemmst er að minnast vel heppnaðrar þátttöku á Alþjóðaleikunum í Shanghai í Kína í október á síðasta ári. Alls tóku þátt 32 keppendur frá Íslandi, á aldrinum 12-47 ára. Verkefnin framundan eru ekki síður spennandi en Special Olympics á Íslandi hefur staðið fyrir Íslandsleikum í frjálsum íþróttum og knattspyrnu og næstu leikar verða haldnir á Akureyri 13. september 2008. Árlega eru haldnir Íslandsleikar í knattspyrnu, innan- og utanhúss í samstarfi við Knattspyrnusamband Íslands. Knattspyrnumótið innanhúss er haldið í tengslum við Evrópuviku Special Olympics í samstarfi við UEFA.

''Við erum mjög stolt af löngu og góðu samstarfi við Íþróttasamband Fatlaðra og Special Olympics á Íslandi'' segir Lárus Welding, forstjóri Glitnis. ''Þetta góða samstarf sýndi sig vel á Alþjóðaleikunum í Kína á síðasta ári, þegar starfsmenn á skrifstofu okkar í Shanghai gátu verið þátttakendum innan handar við skipulag ferðarinnar.''

Special Olympics International eru samtök sem stofnuð voru af Kennedy fjölskyldunni árið 1968. Samtökin hafa vakið heimsathygli vegna markvissrar markaðssetningar og samstarfs við sérfræðinga á öllum sviðum. Þroskaheftir og seinfærir einstaklingar sem oft eru settir til hliðar í samfélögum þjóðanna, eru miðpunktur leika á vegum samtakanna. Umgjörð og skipulag er eins og um ólympíuleika sé að ræða en keppni er á jafnréttisgrundvelli og allir verða sigurvegarar.

Sveinn Áki Lúðviksson, formaður IF og Lárus Welding, bankastjóri


F.v. Ólafur Magnússon, frkvstj. fjármála og afrekssviðs ÍF, Sveinn Áki Lúðviksson, formaður IF, Lárus Welding, bankastjóri, Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, frkvstj. Special Olympics á Íslandi