Íþróttasamband Fatlaðra | laugardagur 26. júlí 00:49

Sáttur meðal sex bestu [frétt af dv.is]

Íþróttasamband fatlaðra tilkynnti í gær hópinn sem mun taka þátt á Ólympíumóti fatlaðra fyrir hönd Íslands í Peking dagana 6.-17. september. Jón Oddur Halldórsson tvöfaldur silfurverðlaunahafi frá síðustu leikum er á meðal keppenda.

Þótt hann sé ungur að árum er spretthlauparinn Jón Oddur Halldórsson reyndastur keppenda.,,Ég er orðin mjög spenntur. Undirbúningurinn hefur gengið vel og þetta stefnir allt í rétta átt,''sagði Jón Oddur við DV í gær.

,,Ég hef ekki verið að ná mínu besta akkúrat núna en ég er að nálgast það. Það er möguleiki að ég verði upp á mitt besta á Ólympíuleikunum en ég þori nú ekki að fullyrða það,'' sagði Jón Oddur og bætti við glettinn:''Það eru engin nákvæm vísindi í þessu.''

Jón Oddur náði silfrinu í 100 og 200 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Aþenu. ,,að var alveg ólýsanleg tilfinning að bíða eftir verðlaununum þá. Ég var orðinn rosalega stressaður að bíða eftir að komast á pallinn og fá verðlaunin. Maður var farinn að svitna''

,,Stressið fyrir hlaupið var nú samt enn meira þar sem maður þurfti að yfirgefa þjálfarann um einum og hálfum klukkutíma áður til að fara í nafnakall. Þá stressaðist ég svolítið upp og varð alveg pikkstífur. Núna verður þetta samt eflaust auðveldara þar sem ég hef gengið í gegnum þetta áður,''sagði Jón sem hefur sett sér markmið á mótinu.

,,Ég get ekki sagt að ég stefni á gullið því það eru svo margir þættir sem spila inn í þegar á mótið kemur eins og dagsformið og fleira. Það er ekkert útilokað að maður nái því og auðvitað væri gaman að komast á pall aftur. Ég kem heim sáttur ef ég verð meðal sex bestu. Það er mitt markmið'' sagði Jón Halldór að lokum.

Hópurinn:
Baldur Ævar Baldursson úr Snerpu keppir í langstökki.
Jón Oddur Halldórsson úr Reyni og Víkingi Ó. keppir í 100 metra hlaupi.
Sonja Sigurðardóttir úr ÍFR keppir í 50 metra baksundi.
Eyþór Þrastarson úr ÍFR keppir í 400 metra skriðsundi og 100 metra baksundi.
Þorsteinn Magnús Sölvason úr ÍFR keppir í lyftingum í 75 kg flokki.

Nánar er fjallað um málið í DV í dag.
Efri mynd: Aftari röð f.v.: Jón Oddur Halldórsson, Baldur Ævar Baldursson, Eyþór Þrastarson. Fremri röð: Þorsteinn Magnús Sölvason, Sonja Sigurðardóttir.
Neðri mynd: Jón Oddur Halldórsson