Íþróttasamband Fatlaðra | miðvikudagur 27. ágúst 14:24

Ólympíumótsfarar kvaddir með virktum

Rúmfatalagerinn stóð í gær að veglegu kveðjuhófi fyrir þá fimm íþróttamenn sem dagana 6.-17. september næstkomandi munu taka þátt í Ólympíumóti fatlaðra í Beijing í Kína. Undirbúningur keppenda er nú á lokastigi og mánudaginn 1. september mun hópurinn halda áleiðis út en opnunarhátíð Ólympíumóts fatlaðra fer fram kl. 18:00 að staðartíma þann 6. september. Aðalfararstjóri í ferðinni verður framkvæmdastjóri afreks- og fjármalasviðs ÍF, Ólafur Magnússon, en í dag hélt hann áleiðis til Beijing að undirbúa komu hópsins.

Á meðal gesta við kveðjuhófið í gær voru þau Kristín Rós Hákonardóttir, Ólafur Eiríksson og Haukur Gunnarsson en þessir þrír einstaklingar eru einhverjir fremstu íþróttamenn úr röðum fatlaðra sem komið hafa frá Íslandi. Arnór Pétursson var einnig viðstaddur kveðjuhófið en hann er einn af fyrstu Íslendingunum til þess að taka þátt á Ólympíumóti fatlaðra. Arnór hélt kveðjuræðu í tilefni dagsins þar sem hann m.a. tíundaði aðstöðumuninn nú og fyrir rúmum 30 árum. Hann óskaði íslensku keppendunum góðrar ferðar og kvaðst þess fullviss að þeir yrðu landi og þjóð til sóma í Kína.

Við þetta sama tilefni komu Vodafone og Tæknivörur færandi hendi og gáfu forláta Samsung síma sem munu koma sér einkar vel í Kína þegar kemur að því að færa tíðindi heim til Íslands. Ásgeir Sverrisson framkvæmdastjóri hjá Tæknivörum gaf keppendum Samsung símana og Vodafone sá til þess að þjálfarar og fararstjórar á vegum Íþróttasambands fatlaðra yrðu ekki útundan og gáfu þessum aðilum einnig Samsung síma. Það var Harpa Georgsdóttir starfsmaður markaðsdeildar Vodafone sem afhenti símana. Íþróttasamband fatlaðra vill af þessu tilefni koma á framfæri innilegu þakklæti til handa Vodafone og Tæknivörum.

Hrannar B. Arnarson var fulltrúi Jóhönnu Sigurðardóttur félags- og tryggingamálaráðherra og fluttar voru kveðjur frá henni við tilefni en Jóhanna verður heiðursgestur ÍF á Ólympíumótinu.

Eftirfarandi íþróttamenn verða fulltrúar ÍF á Ólympíumótinu í Beijing:
Sonja Sigurðardóttir, sund, ÍFR
Eyþór Þrastarson, sund, ÍFR
Þorsteinn Magnús Sölvason, lyftingar, ÍFR
Jón Oddur Halldórsson, frjálsar íþróttir/ spretthlaup, Reynir/Ármann
Baldur Ævar Baldursson, langstökk, Snerpa