Helgina 24. - 26. maí fór fram í Malmo í Svíþjóð, Norðurlandamót í boccia. Íþróttasamband Fatlaðra sendi fimm keppendur á mótið. Ragnhildur Ólafsdóttir, ÍFR, Hallmar Óskarsson, ÍFR og Hjalti Bergmann Eiðsson, ÍFR kepptu í sveita- og einstaklingskeppni, en þau keppa í flokki 4. Keppt er í flokkum 1, 2, 3 og 4 þar sem flokkur 4 er sterkasti flokkurinn. Aðalheiður Bára Steinsdóttir, Grósku, Sauðárkróki og Haraldur Brynjar Sigurðsson, ÍFR kepptu í tvímennings- og einstaklingskeppni en þau keppa í flokki 1, sem er flokkur þeirra sem eru mest fatlaðir. |
Til þess að gefa þeim sem eru mest fatlaðir tækifæri til að keppa í boccia, hefur verið þróað sérstakt hjálpartæki, sem nýtist vel í slíkri keppni. Þetta er renna sem hver keppandi stýrir með aðstoð hjálparmanns en mjög strangar reglur gilda um hvernig hjálparmenn mega aðstoða keppendur. Það er t.d. skilyrði að hjálparfólk, snúi alfarið baki í völlinn þegar keppandi er aðstoðaður við að færa rennuna til. Sumir keppendur þurfa að nýta augnhreyfingar til að stjórna sínu hjálparfólki en ótrúleg einbeiting og keppnisharka, vekur athygli áhorfenda, sem fylgjast með þessum hópi. Margir telja ótrúlegt að svo mikið fatlað fólk, geti æft eða keppt í íþróttum, en með aðlögun og sérhæfðum hjálpartækjum, hefur þeim verið gert kleift að taka þátt í sífellt fleiri greinum. |
Frábær árangur hjá keppendunum í "rennuflokki" Aðalheiður Bára Steinsdóttir vann bronsverðlaun í einstaklingskeppni í sínum flokki og Aðalheiður Bára og Haraldur Brynjar Sigurðsson unnu til bronsverðlauna í parakeppni. Í flokki 1 er keppt í parakeppni, þar sem tveir keppa saman en í öðrum flokkum er sveitakeppni, þrír í sveit. |