Íþróttasamband Fatlaðra | sunnudagur 22. september 17:38

Formannafundur ÍF 2002

Formannafundur ÍF var haldinn sunnudaginn 15. september kl. 10.00 - 16.00
Efni fundarins var fjölbreytt en m.a. var farið yfir verkefni innanlands og erlendis á árinu 2003.
Stærsta verkefnið árið 2003 verður þátttaka í alþjóðaleikum Special Olympics, en þangað fara 48 keppendur frá Íslandi.
Ræddar voru hugmyndir um fjáraflanaleiðir og kynnt jólakort ÍF 2003 sem er hannað af Camillu Th. Hallgrímsson
Þá var rætt um mikilvægi þess að auka samvinnu við önnur sérsambönd og almenn íþróttafélög í þeim tilgangi að skapa fötluðu íþróttafólki aukin tækifæri á að stunda íþróttir. Þar er bæði um að ræða afreksfólk, sem þarf að æfa marga tíma í viku, sem almenna iðkendur sem áhuga hafa á að taka þátt í greinum sem íþróttafélög fatlaðra hafa ekki tækifæri til að bjóða upp á.
Rætt var um ábyrgð íþróttahreyfingarinnar almennt, varðandi tilboð fyrir fatlaða, ekki síst fyrir þá sem búa á þeim stöðum sem ekki er til staðar sérstakt íþróttafélag fatlaðra.
Rætt var um ýmis þróunarverkefni sem í gangi eru, s.s. varðandi reiðmennsku og reiðþjálfun fatlaðra, vetraríþróttir, fimleika og og golf, en GSFÍ, hafa staðið fyrir fjölbreyttum verkefnum í sumar, varðandi golf fyrir fatlaða.
Óskað var eftir ábendingum og hugmyndum frá aðildarfélögum ÍF varðandi dagskrá þjálfararáðstefnu á vegum ÍF en þjálfararáðstefnan 2002, féll niður vegna lítillar þátttöku.
Gestur fundarins var Carola Aðalbjörnsson, en hún lagði fram athyglisverðar niðurstöður úr erlendum rannsóknum, þar sem megináhersla er lögð á snemmtæka íhlutun varðandi hreyfifærni barna. Þar kom fram að markviss hreyfiþjálfun ungra barna getur haft jákvæð áhrif á fjölmarga þætti sem varða almenna færni einstaklinga. Mjög góður árangur hafði náðst með slíkri þjálfun t.d. í rannsóknum á börnum með Down Syndrom, einhverf og spastísk börn en þessar rannsóknir hafa einnig verið gerðar á öðrum hópum barna, jafnt fötluðum sem ófötluðum.
Hægt er að fá nánari upplýsingar um þessi mál hjá Carolu og hún heldur fyrirlestra fyrir hópa sem þess óska.

Carola Adalbjörnsson, flutti fyrirlestur um mikilvægi þess að hefja snemma markvissa þjálfun ungra barna

f.v. Gísli Jóhannsson, Nes, Þórður Ólafsson, ÍFR, Haukur
Þorsteinsson, Eik, Bragi Sigurðsson, Völsungi

f.v Ólöf Guðmundsdóttir, Þjóti, Valgerður Hróðmarsdóttir, Firði