Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 29. október 17:13

Nýr samstarfssamningur við Olíuverslun Íslands h/f

Í tilefni af 75 ára afmæli Olís ákvað fyrirtækið að styðja Íþróttasamband Fatlaðra um samtals kr. 750 þúsund á næstu þremur árum en auk ÍF munu þrjú önnur félagasamtök njóta góðs af stuðningi fyrirtækisins.
Olís hefur á undanförnum árum verið einn af öflugustu samstarfs- og styrktaraðilum ÍF og styrkti m.a. sambandið vegna undirbúnings og þátttöku fatlarða íþróttamanna í Ólympíumótinu í Sydney árið 2000.
Það er ÍF mikið gleðiefni að svo öflugt fyrirtæki sem Olís er skuli leggja jafn mikið af mörkum til íþrótta fatlaðra eins og raun ber vitni og sambandinu ómetanleg hvatning til áframhaldandi uppbyggingar íþróttastarfs fatlaðra hér á landi.
Það var Camilla Th. Hallgrímsson, varaformaður ÍF (yst til hægri) og Helga Friðriksdóttir framkvæmdastjóri markaðssviðs smásölu hjá Olís (önnur frá vinstri) sem undirrituðu saminginn. Aðrir á myndinni eru fulltrúar Götusmiðjunnar og Foreldrafélags misþroska barna sem einnig nutu góðs af stuðningi Olís.