Föstudaginn 24. október sl. var endurnýjaður samningur Íþróttasambands Fatlaðra og Haraldar Böðvarssonar hf. Akranesi, en fyrirtækið hefur frá árinu 1998, verið einn af samstarfs- og styrktaraðilum ÍF vegna undirbúnings fyrir Ólympíumót fatlaðra. Árið 1998 hófst samstarf við fyrirtækið vegna Ólympíumótsins í Sydney 2000 og nú hefur verið staðfestur áframhaldandi samningur vegna Ólympíumótsins í Aþenu 2004. Íþróttasamband Fatlaðra, hefur fylgt sömu stefnu nú og fyrir undangengin Ólympíumót fatlaðra og lagt áherslu á markvissan undirbúning sem skipulagður er í samráði við landsliðsþjálfara ÍF. Mikill kostnaður fylgir slíkum undirbúningi og áhersla er lögð á að undirbúningshópurinn geti tekið þátt í sterkum mótum erlendis. Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF, sem undirritaði samninginn fyrir hönd ÍF sagðist mjög ánægður með það samstarf sem verið hefur í gangi á milli ÍF og Haraldar Böðvarssonar hf og fagnaði því að fyrirtækið hefði ákveðið að endurnýja þennan samning nú, með það að markmiði að styðja ÍF vegna Ólympíumótsins í Aþenu 2004. Haraldur Sturlaugsson framkvæmdastjóri, sem undirritaði samninginn fyrir hönd Haraldar Böðvarssonar hf, sagðist vona að þessi samstarfssamningur gerði ÍF kleift að undirbúa keppendur sem best fyrir Ólympíumótið í Aþenu og sagðist vera stoltur af því íþróttafólki sem keppt hefur fyrir Íslands hönd á Ólympíumótum fatlaðra. Það væri fyrirtækinu sérstök ánægja að styðja fatlað íþróttafólk til dáða og styðja á þennan hátt starfsemi Íþróttasambands Fatlaðra. |
|