Rúmfatalagerinn afhenti á dögunum Íþróttasambandi Fatlaðra styrk að upphæð 3 milljónir króna m.a. til undirbúnings og þátttöku fatlaðra íþróttamanna vegna Ólympíumóts Fatlaðra í Aþenu 2004. Þar með hefur Rúmfatalagerinn, sem er aðalstyrktar- og samstarfsaðili Íþróttasambands Fatlaðra, greitt til sambandsins 9 milljónir af 12 milljón króna styrk sem varið hefur verið til uppbyggingar og þjálfunar fatlaðra íþróttamanna. Styrkur og stuðningur Rúmfatalagersins hefur meðal annars gert Íþróttasambandi Fatlaðra kleift að veita afreksfólki sínu þann stuðning sem það þarf á að halda til að geta byggt sig upp, andlega sem líkamlega fyrir stórátök á íþróttasviðinu og þá ekki síst þeim er þátt taka í Ólympíumóti fatlaðra sem fram fer í Aþenu í september n.k. Það var Camilla Th. Hallgrímsson, varaformaður Íþróttasambands Fatlaðra sem veitti styrknum viðtöku frá fjármálastjóra Rúmfatalagersins Guðmundi Pálssyni. Í tengslum við styrkveitinguna lék hljómsveitin “Tenderfoot” og Solla striða úr Latabæ skemmti yngstu áhorfendunum ásamt því að uppfræða unga sem aldna um gildi hollrar hreyfingar og mataræðis. |
Á myndinni sjást Camilla Th. Hallgrímsson, varaformaður ÍF (t.v.), fjármálastjóri Rúmfatalagersins Guðmundur Pálsson (t.h.). |