Nýlega endurnýjuðu Íþróttasamband Fatlaðra og Radisson SAS hótelin á Íslandi með sér samning sinn um samstarf og stuðning Radisson SAS hótelana við strarfsemi Íþróttasambands Fatlaðra. Samstarfssamningur þessi felur meðal annars í sér að fulltrúar sambandsins njóti ávallt hagstæðustu kjara varðandi mat og gistingu á hótelum Radisson SAS á Íslandi. Þá fær Íþróttasamband Fatlaðra ákveðna styrktarupphæð sem greiðist í formi peninga eða úttektar í gistingu og mat á hótelunum. Í tilefni af undirritun samningsins sagði Sveinn Áki Lúðvíksson formaður Íþróttasambands Fatlaðra að mikil ánægja væri innan sambandsins með áframhaldandi stuðning Radisson SAS hótelanna við íþróttastarf fatlaðra hér á landi, en Radisson SAS hótelin hafa lengi stutt sambandið t.a.m. vegna útnefningar íþróttamanns fatlaðra ár hvert auk ýmissa funda og ráðstefna sem haldnar hafa verið á vegum sambandsins. Það væri Íþróttasambandi fatlaðra mjög mikilvægt að svo öflugt fyrirtæki sem Radisson SAS hótelin eru sæi sér fært að koma til móts við þarfir sambandsins með svo myndarlegum hætti. Kristján Daníelsson, sölu- og markaðsstjóri sem undirritaði saminginn fyrir hönd Radisson SAS hótelenna á Íslandi lýsti ánægju sinni yfir því að fá að taka þátt í að styðja við íþróttahreyfingu fatlaðra hér á landi. Það væri Radisson SAS hótelunum afar mikilvægt að sýna fram á og kynna þá góðu þjónustu það aðgengi sem Radisson hótelin hafa upp á að bjóða, auk þess að styðja við íþróttalíf landsins. Á myndinni sjást Kristján Daníelsson (t.v.) Sölu- og markaðsstjóri Radisson SAS hótelanna á Íslandi og Sveinn Áki Lúðvíksson (t.h.) formaður Íþróttasambands Fatlaðra handsala inn nýja samning. |