Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 22. júní 00:19

Forseti alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra kynnir sér íslenska hestinn

Phil Craven, Forseti alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC) og Bob Price, Forseti Evrópudeildar ólympíuhreyfingar fatlaðra voru í heimsókn á Íslandi í byrjun júní. Íþróttasamband Fatlaðra skipulagði dagskrá fyrir þá hér á landi og m.a. var farið til Íshesta í Hafnarfirði í þeim tilgangi að kynna þeim íslenska hestinn.
Erlendis hafa hestar verið notaðir í sívaxandi mæli við meðferð og þjálfun fatlaðs fólks og íslenski hesturinn er talinn henta sérlega vel á þessu sviði. Nokkrir aðilar hafa starfað að þessum málum hér á landi en árið 2001 stóð Íþróttasamband Fatlaðra og Hestamiðstöð Íslands á Sauðárkróki fyrir námskeiði og málþingi um reiðþjálfun og reiðmennsku fatlaðra, þar sem tilgangur var fyrst og fremst sá að virkja fólk til samstarfs og kanna stöðu mála hér á landi. Fólk kom aftur saman á ráðstefnu á vegum IF og HMÍ haustið 2003 og greinileg vakning hefur orðið á þessu sviði. Starfshópur á vegum ÍF og HMÍ vinnur nú að því að skapa grundvöll til viðræðna við stjórnvöld um viðurkenningu á þessu árangursríka meðferðarformi.
Á myndinni er Phil Craven, Forseti IPC ásamt Einari Bollasyni og Sigrúnu Sigurðardóttur, reiðkennara og starfsmanni Íshesta en hún er sérmenntuð á sviði reiðþjálfunar fyrir fatlaða.