Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 14. september 11:18

Frá Ólympíumóti fatlaðra í Aþenu

Hluti íslenska hópsins kom til Aþenu seint að kvöldi þess 11. september sl. eftir langt og strangt ferðalag frá Íslandi en þetta voru keppendurnir Kristín Rós Hákonardóttir og Jóhann Kristjánsson ásamt Sveini Áka Lúðvíkssyni aðalfararstjóra, Ludvig Guðmundssyni lækni og þjálfurunum Kristínu Guðmundsdóttur og Helga Gunnarssyni.
Íslenski hópurinn býr Cntaurus GA09 í hinu svokallaða græna svæði í Ólympíuþorpinu.

Smá byrjunarörðuleikar hafa verið varðandi ýmsa hluti sem fylgja eiga vistarverum íbúa Ólympíuþorpsins en með dyggri aðstoð hins gríska Kostas og Veru, sem eru aðstoðarmenn íslenska hópsins lítur út fyrir að öll mál leysist á farsælan hátt.
Íslensku keppendurnir hafa undanfarana tvo daga æft á þeim stöðum sem keppt verður á og fannst mikið til koma og ljóst að Grikkir hafa lagt mikinn metnað í byggingu allra þeirra mannvirkja sem notuð hafa verið í tengslum við Ólympíuleikana og nú Ólympíumót fatlaðra.
Á myndinni sjást íslensku ferðalangarnir koma í Ólympíuþorpið að kvöldi hins 11. september og á mynd 2 sjást aðstoðarmenn íslenska hópsins ásamt bílstjóra hópsins t.h. Vera, Kostasa, Giota ásamt Sveini Áka Lúðvíkssyni aðalsfararstjóra.