Nú hafa allir íslensku keppendurnir skilað sér til Grikklands og komið sér fyrir í Ólympíuþorpinu. Sá síðasti, frjálsíþróttamaðurinn Jón Oddur Halldórsson kom til Aþenu að kvöldi þess 14. september ásamt þjálfara sínum Kára Jónssyni. Miðvikudagurinn 15. september var síðan notaður til æfinga, skoðunar á þeim stöðum sem keppnin fer fram ásamt því að læra að koma sér milli staða í Ólympíuþorpinu og milli keppnisstaða. |
Eftir að hafa virt fyrir sér þá þjónustu sem í boði er hér í Ólympíuþorpinu er ekki annað en hægt að dáðst að þeirri skipulagningu sem að baki liggur. Í Ólympíuþorpinu munu búa um tíu þúsund manns sem þjónusta þarf á hinn ýmsa hátt, keppendur, þjálfarar, aðstoðarmenn, dómarar og fleiri sem mótinu tengjast. Þessu fólki þarf að koma milli staða innan Ólympíuþorpsins og utan þess, veita alhliða læknisþjónustu, bregðast við bilunum af ýmsum toga að ógleymdu því að tryggja íbúum þorpsins mat við allra hæfi. Þrátt fyrir smá byrjunarörðuleika verður að segja Grikkjum til hróss, að allavega enn sem komið er hefur ekkert komið upp sem framkvæmdaraðilum hefur ekki tekist að leysa á farsælan hátt - lítið má út af bregða til að óánægja skapist. Lofar þessi byrjun framkvæmdaraðila góðu og vonandi lofar það líka góðu fyrir framhaldið. Á morgun, fimmtudaginn 16. september fer fram hátíðarathöfn þar sem borgarstjóri Ólympíuþorpsins býður íslenska hópinn velkominn en slík athöfn er haldinn til heiðurs öllum þátttökuþjóðunum. Á mynd 1 sjást þeir Jón Oddur Halldórsson og Kári Jónsson við komuna í Ólympíuþorpið og á mynd 2 sést Kristín Rós Hákonardóttir á æfingu í laug þeirri sem sundkeppni Ólympíumótsins mun fara fram í. |