Kristín Rós keppti í 50 m skriðsundi. Í undanrásunum í morgun fékk hún þriðja besta tímann 35,76 sek, en Íslandsmet hennar var 35,63 sek. Í úrslitasundinu í kvöld lenti hún í fjórða sæti á nýju Íslandsmeti, 35,47 sek. Sigurvegari varð Erin Popovich frá Bandaríkjunum á nýju heimsmeti 34,34 sek. Önnur varð Kirsten Bruhn frá Þýskalandi, tími 34,92 sek og þriðja Danielle Campo frá Kanada, tími 35,17 sek. Kristín Rós keppti í fjórum greinum á mótinu. Hún hlaut ein gullverðlaun, ein silfurverðlaun, lenti einu sinni í fjórða sæti og einu sinni í því fimmta. Þá setti hún eitt heimsmet og eitt Íslandsmet. Hún er því enn að bæta sig þrátt fyrir langan og glæsilegan keppnisferil og sannaði enn og aftur hve mikil afburðakona íþróttakona hún er. |
Jón Oddur keppti í kvöld í úrslitum í 200 metra hlaupi í flokki T 35. Hann hafnaði aftur í öðru sæti, næst á eftir Suður-Afríkumanninum Teboho Mokgalagadi. Mokogalagadi hljóp á tímanum 26,80 sek og setti nýtt Ólympíumet (var 27,17 sek). Jón hljóp á tímanum 27,27 sek sem er nýtt Íslands- og Norðurlandamet eins og í 100 metra hlaupinu. Í þriðja sæti varð heimsmethafinn Lloyd Upsdell frá Bretlandi á tímanum 27,82 sek. Jón er þannig búinn að vinna til tveggja silfurverðlauna og setja tvö Ísalands- og Norðurlandamet á sínu fyrsta en örugglega ekki síðasta Ólympíumóti. |
Jóhann Rúnar Kristjánsson, sem lauk keppni í borðtennis fyrir einni viku sýndi í leikjum sínum sem hann tapaði naumlega, að hann hefur tekið miklum framförum og ætti að geta unnið þá bestu í sínum flokki á góðum degi. Hans aðalvandamál er að hafa enga mótherja í sínum flokki að keppa við heima á Ísalndi. Hann verður því að leita út fyrir landsteinana til að finna sér heppilega mótherja. Óhætt er að fullyrða að allir íslensku keppendurnir á þessu Ólympíumóti fatlaðra hafi náð að sýna allar sínar bestu hliðar og árangur þeirra fyllilega staðið undir þeim væntingum sem til þeirra voru gerðar. Þrátt fyrir töp náði Jóhann Rúnar betri árangri í borðtennis en hann hefur gert hingað til, Íslands-, Norðurlanda- og Heimsmet voru slegin - er hægt að biðja um meira?? Enn og aftur hafa fatlaðir íslenskir íþróttamenn sýnt hversu þeir eru megnugir á stórmótum. Með verðlaunapeningum þeim er íslensku keppendurnir hafa til unnið hafa þeir skipað Íslandi í 47. sæti af 136 þjóðum hvað verðlaun varðar með ein gullverðlaun og þrenn silfurverðlaun - ekki slæmt af einu fámennasta keppnisliði mótsins. Sigrar og töp, gleði og sorg eru fylgifiskar stórmóta sem Ólympíumóts fatlaðra en framundan er lokahátíð þessa 12. Ólympíumóts fatlaðra. Þar munu keppendur og aðrir gera sér glaðan dag en síðan tekur alvaran við aftur og nýtt æfingaferli hefst með tilheyrandi erfiði og þrautseigju. Framundan eru álfumót, heimsmeistaramót og að fjórum árum liðnum nýtt Ólympíumót og þá í Peking i Kína. Þó svo að lokaathöfninni sé ekki lokið er ekki annað hægt en að óska Grikkjum til hamingju með alla framkvæmd þessa Ólympíumóts. Hafi menn einhverntíma efast um getu þeirra til að halda mót sem Ólympíuleika og Ólympíumót þá sýndu Grikkir svo ekki var um villst að þeir væru fullfærir um að halda þau og það með miklum glæsibrag enda búa þeir að árþúsunda arfleið í að halda slík mót. Til hamingju Hellenar - sinharitiria Ellada. Með bestu þökkum fyrir okkur - efharisto poli. |