Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 21. október 18:31

Kristínu Rós veitt viðurkenning sem besta íþróttakona Evrópu úr röðum fatlaðra

Sjónvarpsstöðin Eurosport, í samstarfi við Alþjóðaólympíuhreyfinguna (IOC) hefur frá árinu 2000 veitt viðurkenningar til þeirra íþróttamanna í Evrópu sem skarað hafa fram úr í hinum ýmsu íþróttagreinum. Í ár tilnefndu 28 alþjóðasambönd alls 54 íþróttamenn vegna framúrskarandi árangurs á árinu og veittu þessir einstaklingar viðurkenningum sínum viðtöku í hófi sem haldið var þeim til heiðurs hinn 18. október sl. höfuðstöðvum IOC í Lusanne í Sviss.
Meðal þeirra íþróttamanna sem viðurkenningu hlutu var Kristín Rós Hákonardóttir sem var tilnefnd til þessara verðlauna af hálfu Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC) ásamt knapanum Lee Pearson frá Bretlandi en þetta var í fyrsta inn sem fatlaðir íþróttamenn voru meðal þeirra sem viðurkenningar hljóta. Kristín Rós, sem keppir í flokki S7, vann sem kunnugt er til gullverðlauna í 100 m baksundi jafnframt því að setja heimsmet í greininni og silfurverðlauna í 100 m bringusundi á nýafstöðnu Ólympíumóti fatlaðra sem fram fór í Aþenu í september sl. Alls hefur Kristín Rós unnið til sex gullverðlauna , einna silfurverðlauna og þriggja bronsverðlauna á þeim Ólympíumótum sem hún hefur tekið þátt í en mótið í Aþenu var það fimmta í röðinni. Það að Kristín Rós sé valinn á þessum tímamótum sem besta fatlaða íþróttakonan í Evrópu er enn ein rósin í hnappagatið hjá þessari frábæru íþróttakonu og ekki skemmir fyrir að þetta er í fyrsta sinn sem þessi viðurkenning er veitt til fatlaðra íþróttamanna.
Framkvæmdastjóri IPC, Miguel Sagarra, sem viðstaddur var þessa athöfn fyrir hönd samtakanna, sagði við þetta tækifæri að það að fatlaðir íþróttamenn væru nú meðal þeirra sem viðurkenningar hlytu undirstrikaði það að nú væri litið til íþróttafærni þessara einstaklinga en ekki fötlunar þeirra.

Upptaka af verðlaunaafhendingu þessari verður sýnd á Eurosport hinn 24. október n.k klukkan 20:30 og 1. desember kl 20:00 (Evrópu tími)

Á mynd 1 sést Kristín Rós við merki hátíðarinnar og á mynd 2 ásamt formanni Íþróttasambands Fatlaðra Sveini Áka Lúðvikssyni með verðlaunagripinn góða.