Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 4. janúar 10:49

Nýárssundmót fatlaðra barna og unglinga

Nýárssundmót fatlaðra barna og unglinga fór fram í 21. sinn í hinni nývígðu 50 m innanhússlaug í Laugardalnum.
Borgarstjórinn í Reykjavík, frú Steinunn Valdís Óskarsdóttir var heiðursgestur mótsins að þessu sinni og ávarpaði hún mótsgesti við upphaf móts en áður höfðu íþróttamenn ársins 2004, þau Kristín Rós Hákonardóttir og Gunnar Örn Ólafsson, verið meðal þeirra sundmanna tóku fyrstu sundtökin í lauginni í tilefni vígslu hennar.
Þetta Nýárssundmót er eitt það fjölmennasta sem haldið hefur verið og voru um 80 þátttakendur frá 5 félögum skráð til leiks.
Besta afrek mósins samkvæmt stiga og forgjafaútreikningi vann Guðrún Lilja Sigurðardóttir, íþróttafélagi fatlaðra Reykjavík, hlaut 528 stig fyrir 50 m skriðsund sem hún synti á tímanum 35,20 sek. Í öðru sæti varð Lára Steinarsdóttir, Firði sem hlaut 484 stig fyrir 50 m bringusund á tímanum 48,84 sek og í þriðja sæti Hulda Hrönn Agnarsdóttir einnig úr Firði sem hlaut 408 stig fyrir 50 m skriðsund sem hún synti á tímanum 40,02 sek. Þess má geta að þetta er í þriðja sinn sem Guðrún Lilja vinnur þennan bikar og þar með til eignar.

Í mótslok afhenti Magnús Sigurðsson framkvæmdastjóri Rúmfatalagersins þátttakendum viðurkenningarskjöl fyrir þátttöku sína en Sjómannabikarinn afhenti síðan í forföllum borgarstjóra forseti ÍSÍ Ellert B. Schram.

Við þetta tækifæri var endurnýjaður samstarfssamningur Rúmfatalagersins ehf og Íþróttasambands Fatlaðra til næstu 4 ára eða fram að Ólympíumótinu í Peking árið 2008. Rúmfatalagerinn, sem verið hefur aðalstyrktaraðili sambandsins undanfarin ár, styrkir sambandið nú að upphæð kr. 12 milljónir sem gerir Rúmfatalagerinn að stærsta einstaka styrktaraðila sambandsins.

Úrslit mótsins má finna hér