Alþjóðavetrarleikar Special Olympics 2005 - Ísland í fyrsta skipti með í keppni í listhlaupi á skautum 2 íslenskir keppendur munu taka þátt í alþjóðavetrarleikum Special Olympics í Nagano í Japan, dagana 25.02 - 05.03 2005 Þetta eru þau Sandra Ólafsdóttir og Stefán Erlendsson, sem bæði eru nemendur í sérdeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Fararstjórar, þjálfarar og aðstoðarmenn verða Jóhann Arnarson, stjórnarmaður í ÍF og kennari við við FB og Guðrún Hallgrímsdóttir, deildarstjóri sérdeildar FB. Aðdragandi þessa verkefnis hefur verið mjög sérstakur en Ísland hafði sótt um kvóta fyrir keppendur í alpagreinum og fyrirhugað var að undirbúa og þjálfara keppendur til þátttöku á skíðum. Vegna snjóleysis síðastliðin vetur tókst ekki að ná þessu markmiði og ákveðið var í september 2004 að hætta við þátttöku. Í kjölfarið var Íslandi boðið að senda keppendur til þátttöku í annarri grein en aðeins var gefin vika til ráðstöfunar. Stjórn Special Olympics ákvað að nýta þetta tilboð og velja 2 keppendur til þátttöku í byrjendaflokki í listhlaupi á skautum. Aðildarfélög ÍF hafa ekki staðið fyrir skautaæfingum og því var leitað til sérdeildar FB þar sem mikil áhersla hefur verið lögð á íþróttir og útivist, m.a. skautaferðir. Því réði ekki síður að þar starfa kennarar sem hafa mikla reynslu af starfi Special Olympics, bæði sem þjálfarar og fararstjórar, Jóhann Arnarson og Guðrún Hallgrímsdóttir. Þeim var falið að hafa umsjón með þessu verkefni og velja 2 keppendur til þátttöku og tóku þau mjög vel í það strax frá upphafi. Farið var með alla nemendur á skautasvellið í Laugardal þar sem í kjölfarið voru valdir 2 einstaklingar, þau Sandra Ólafsdóttir og Stefán Erlendsson. Í upphafi var stuðst við innkaupakörfur og hjálparlið og listhlaup á skautum var frekar framandi orð á þeim tíma. Síðan þá hefur margt gerst og undir stjórn þjálfara, fyrst hjá Skautafélagi Reykjavíkur og síðan hjá Skautafélaginu Birninum hafa þau tekið ótrúlegum framförum. Þau eru nú farin að æfa markvisst keppnisatriðin og eru tilbúin til að taka þátt í keppninni. Þau völdu sjálf eigin tónlist og allur undirbúningur hefur verið mjög spennandi, fyrir keppendur sjálfa en ekki síður fyrir aðra sem hafa komið að þessu verkefni. Þrátt fyrir frábæra inniaðstöðu og tækifæri til skautaiðkanda hafa skautasvæðin verið lítið nýtt af fötluðum einstaklingum. Þetta verkefni hefur vakið mikla athygli og verður vonandi til þess að hvetja fleiri fatlaða til þátttöku í skautaíþróttinni. Sérstakir sleðar eru til staðar hér á landi fyrir þá sem eru hreyfihamlaðir. Mjög algengt er að smíðaðir séu eigin sleðar til skauta og skíðaiðkana. |
fv. Sandra Ólafsdóttir, Helga Ólsen, þjálfari, Guðrún Hallgrímsdóttir, Stefán Erlendsson, Jóhann Arnarson |