Íslandsbanki og Sjóvá undirrituðu samstarfssamning við Special Olympics á Íslandi laugardaginn 19. febrúar. Fyrirtækin verða aðalstyrktaraðilar Special Olympics á Íslandi fram yfir alþjóðaleika samtakanna í Kína árið 2007. Styrknum verður varið til uppbyggingar á starfsemi Special Olympics hér á landi og þátttöku í verkefnum erlendis. Samstarfssamningurinn er mjög þýðingarmikill fyrir uppbyggingu og þróun á starfi samtakanna hér á landi. Special Olympics samtökin hafa skapað ný tækifæri fyrir þroskaheft íþróttafólk en markmið þeirra er að allir hafi sömu möguleika til þátttöku á leikum samtakanna. Í samningnum er einnig ákvæði um að Sjóvá mun sjá um allar vátryggingar Íþróttasambands fatlaðra . Heildarvirði samningsins er 8. milljónir króna. Íslendingar hafa öðlast tækifæri til að taka þátt í keppni á Alþjóðaleikum Special Olympics í greinum sem áður hafa ekki verið í boði fyrir þroskahefta t.a.m. í fimleikum, handbolta, golfi og nú í listhlaupi á skautum. Íslandsbanki hefur verið aðalstyrktaraðili Special Olympics á Íslandi undanfarin ár Í tengslum við undirritun samstarfssamningsins fór fram sýning í Egilshöll þar sem keppendur á leið á Alþjóðavetrarleika Special Olympics í Nagano í Japan sýndu keppnisatriði sín. Fyrir þessa keppendur og aðra sem valdir verða til þátttöku í slíkum verkefnum hefur þessi samstarfssamningur úrslitaþýðingu. Án utanaðkomandi stuðnings væri ekki mögulegt að taka þátt í svo kostnaðarsömum verkefnum. Stjórn Íþróttasambands Fatlaðra og Special Olympics á Íslandi fagna þessum samstarfssamningi og munu áfram leggja metnað í að byggja upp gott og árangursríkt samstarf við fyrirtæki sem styrkja íþróttastarf fatlaðra á Íslandi. |