Nýlega var endurnýjaður samstarfssamningur milli Íþróttasambands fatlaðra og Flugfélags Íslands um flutninga á meðlimum íþróttasambandsins á flugleiðum félagsis og áheit Flugfélags Íslands til íþróttasambandsins vegna Ólympíumóts fatlaðra árið 2008. Samningurinn sem nær til ársins 2008 felur meðal annars í sér að allt íþróttafólk sem ferðast á vegum sambandsins með flugi innanlands fljúgi með Flugfélagi Íslands og býður Flugfélag Íslands íþróttasambandinu sérfargjöld á öllum leiðum félagsins innanlands. Einnig fær íþróttasambandið ákveðinn fjölda flugmiða á ári á gildistíma samningsins án endurgjalds. Flugfélag Íslands er með þessum samningi einn af stuðningsaðilum Íþróttasambands fatlaðra vegna undirbúnings og þátttöku sambandsins í Ólympíumótinu 2008. Í tilefni af undirritun samningsins sagði Sveinn Áki Lúðvíksson formaður Íþróttasambands fatlaðra að mikil ánægja væri innan sambandsins með þann stuðning og þá þjónustu sem Flugfélag Íslands hefur veitt Íþróttasambandi fatlaðra gegnum tíðina. Endurnýjun samstarfssamnings við Flugfélag Íslands væri því mikil viðurkenning á starfi Íþróttasambands Fatlaðra og mikilvæg hvatning til áframhaldandi uppbyggingar íþrótta fatlaðra í landinu. Árni Gunnarsson, sölu- og markaðsstjóri Flugfélags Íslands, sem undirritaði samninginn fyrir hönd flugfélagsins, lýsti yfir mikilli ánægju endurnýjun samningsins og að vonandi auðveldaði samningurinn forystu íþróttahreyfingar fatlaðra að efla starfsemina jafnframt því að gera fötluðu íþróttafólki kleift að halda áfram þeim markvissa undirbúningi sem nauðsynlegur er til árangurs í íþróttum. Flugfélag Íslands hefði verið einn af aðal stuðningsaðilum sambandsins frá 1996 og það væri flugfélaginu afar mikilvægt að taka virkan þátt í að styðja við íþróttalíf landsins. Samningur þessi væri hluti af þátttöku félagsins í starfi íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Á meðfylgjandi mynd eru Árni Gunnarsson, sölu- og markaðsstjóri (t.v.) og Sveinn Áki Lúðvíksson við undirritun samningsins. |