Íþróttasamband Fatlaðra | miðvikudagur 2. mars 15:10

VETRARLEIKAR SPECIAL OLYMPICS

Keppni íslensku keppendanna á Vetrarleikum Special Olympics í Nagano í Japan var að ljúka og myndir voru að berast frá leikunum.
Þau Sandra Ólafsdóttir og Stefán Erlendsson, vöktu mikla athygli fyrir faglega útfærslu sinna atriða. Á leikum Special Olympics keppa allir við sína jafningja og því er möguleiki til verðlauna til staðar fyrir alla, jafnt byrjendur sem lengra komna.
Skv. fréttum frá fararstjóra gekk báðum keppendum mjög vel í lokakeppninni og bæði fengu verðlaun í sínum flokki. Sandra var í fyrsta sæti og Stefán var í þriðja sæti.
Á stigagjöfinni að dæma vann Sandra með glæsibrag og var töluvert í næsta keppanda. Þau Sandra og Stefán hafa hlotið mikla og verðskuldaða athygli og hafa margir komið að máli við fararstjórana og hælt þeim fyrir góða skautamennsku og frammistöðu. Margir eiga erfitt með að trúa því að þau hafi byrjað að skauta fyrir aðeins þremur mánuðum.

Eins og fram hefur komið var þetta verkefni tilkomið vegna sérstakra aðstæðna og undirbúningstími ekki langur. Það er því þeim mun meiri ástæða til að fagna þeim árangri sem einstaklingarnir náðu sem sýnir hvað margt er að hægt að gera ef fólk leggur sig fram og stefnir á ákveðin markmið.
Íþróttasamband Fatlaðra fagnar því að hafa fengið ráðgjöf og liðsinni Helgu Olsen skautaþjálfara hjá Listhlaupadeild Skautafélagsins Bjarnarins vegna þessa verkefnis en það er ekki síst henni að þakka að ótrúlegur árangur náðist á stuttum tíma.
Þetta verkefni hefur sannfært marga um það að forsendur til aukinnar þátttöku fatlaðra í skautaíþróttum eru til staðar, tækifæri hafa skapast með nýjum skautahöllum og það er von Íþróttasambands Fatlaðra að fötluð börn, unglingar og kynnist þessarri skemmtilegu íþrótt.
Fatlaðir nemendur eiga að hafa tækifæri til þess að taka virkan þátt, þegar farið er í skólaferðir á skíði eða skauta í stað þess að sitja heima eða mæta og horfa á, eins og því miður virðist hafa verið raunin í mörgum tilvikum.
Skauta- og skíðasleðar hafa verið fluttir til landsins fyrir Íþróttsambands Fatlaðra og mikil þörf er á að kynna þá möguleika sem vetraríþróttir og útivist gefa fötluðu fólki.