Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 12. apríl 12:13

Sambandsþing Íþróttasambands Fatlaðra

Sambandsþing ÍF var haldið 9. apríl sl. á Radisson SAS hótels Sögu. Dagskrá var samkvæmt lögum sambandsins en þingið sóttu um 50 fulltrúar aðildarfélaga ÍF. Meðal gesta sem ávörpuðu þingið var forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, Árni Magnússon félagsmálaráðherra og Ellert B. Schram forseti ÍSÍ
Stærsta mál þingsins var tillaga um nýtt flokkakerfi fyrir þroskahefta íþróttamenn. Með það að markmiði að tryggja sem mestan jöfnuð í keppni er öllum íþróttasamtökum fatlaðra í heiminum nú gert skylt að kröfu alþjóðahreyfinga fatlaðra (IPC og INAS-Fid) að skrá fötlun allra þeirra sem þátt taka í íþróttum þroskaheftra á alþjóðavettvangi. Tillagan var samþykkt sem þýðir að í framtíðinni munu þroskaheftir keppa í tveimur flokkum á Íslandi en hingað til hefur þessi fötlunarfokkur keppt í einum opnum flokki.
Þingið heimilaði einnig stjórn ÍF að ganga til viðræðna við framkvæmdastjórn ÍSÍ um breytingar á reglugerð um afreksmannasjóð ÍF

Ein breyting varð á stjórn sambandsins; Kristján Svanbergsson hætti í stjórn en í hans stað var kosinn Ólafur Eiríksson en Ólafur hefur, síðan hann lauk farsælum keppnisferli sínum, setið í ýmsum nefndum og ráðum innan ÍF. Sveinn Áki Lúðvíksson var einróma endurkjörin formaður sambandsins. Auk Sveins Áka voru endurkjörin í stjórn ÍF þau: Camilla Th. Hallgrímsson, Þórður Árni Hjaltested, Ólafur Þór Jónsson, Erlingur Þ. Jóhannsson, Jóhann Arnarson og Svava Árnadóttir.