Nýlega endurnýjuðu Osta- og smjörsalan sf . og Íþróttasamband Fatlaðra (ÍF) samning um samstarf og stuðning fyrirtækisins við starfsemi Íþróttasambands Fatlaðra. Osta- og smjörsalan sf. hefur undanfarin ár styrkt starfsemi Íþróttasambands Fatlaðra og var meðal annars eitt þeirra fyrirtækja sem studdi sambandið vegna undirbúning og þátttöku þess í Ólympíumótinu í Aþenu árið 2004. Með hliðsjón af þeim glæsta árangri sem þar náðist ákvað Osta- og smjörsalan sf. að endurnýja samstarfssamning sinn við Íþróttasamband Fatlaðra og renna þannig styrkari stoðum undir starf Íþróttasambands Fatlaðra í þágu fatlaðra íþróttamanna. Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður Íþróttasambands Fatlaðra, sem undirritaði samninginn fyrir hönd sambandsins sagði við þetta tækifæri að glæsilegur árangur fatlaðra íþróttamanna á Ólympíumóti fatlaðra í Aþenu 2004 hefði ekki síst verið ávöxtur samstarfs Osta- og smjörsölunnar sf. og annarra samstarfsaðila Íþróttasambands Fatlaðra. Endurnýjun samstarfssamnings við Osta- og smjörsöluna sf. væri því mikil viðurkenning á starfi Íþróttasambands Fatlaðra og mikilvæg hvatning til áframhaldandi uppbyggingar íþrótta fatlaðra í landinu. Magnús Ólafsson, forstjóri Osta- og smjörsölunnar sf. sagði eftir undirritun samningsins að fyrirtækinu væri sérstök ánægja að vera í samstarfi við jafn öflug samtök og íþróttahreyfing fatlaðra hefði sýnt sig í að vera. Vonandi gerði þessi samningur fötluðum íþróttamönnum kleift að halda áfram þeim markvissa undirbúningi sem nauðsynlegur er til árangurs í íþróttum Samningur Osta- og smjörsölunnar sf. og Íþróttasambands Fatlaðra gildir fram yfir Ólympíumót fatlaðra í Peking 2008. Á myndinni handsala Magnús Ólafsson t.v. og Sveinn Áki Lúðvíksson t.h. samstarfs- og styrktasamninginn. |