Nýlega endurnýjuðu KB-banki og Íþróttasamband Fatlaðra (ÍF) samning um samstarf og stuðning bankans við starfsemi Íþróttasambands Fatlaðra. KB banki er með þessum samningi einn af aðalsamstarfs- og styrktaraðilum Íþróttasambands Fatlaðra vegna undirbúnings og þátttöku fatlaðra íþróttamanna í Ólympíumóti fatlaðra sem haldið verður í Peking árið 2008. Þess ber að geta að bankinn hefur allt frá stofnun sambandsins verið einn stærsti styrktaraðili íþrótta fatlaðra hér á landi og aðalviðskiptabanki sambandsins þau 25 ár sem liðin eru frá stofnun þess. Í tilefni af undirritun samningsins sagði Sveinn Áki Lúðvíksson formaður Íþróttasambands Fatlaðra að mikil ánægja væri innan sambandsins með áframhaldandi stuðningi KB banka við íþróttastarf fatlaðra hér á landi. Það væri sambandinu mjög mikilvægt að svo öflugur banki sem KB banki sæi sér fært að koma til móts við þarfir sambandsins með svo myndarlegum hætti sem raun ber vitni. Friðrik Halldórsson, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs KB banka, sem undirritaði samninginn fyrir hönd bankans lýsti yfir mikilli ánægju með það að bankinn væri einn af aðal samstarfs- og stuðningsaðilum Íþróttasambands Fatlaðra. Það væri KB banka afar mikilvægt að taka virkan þátt í að styðja við íþróttalíf landsins og væri samningur þessi hluti af þátttöku bankans í starfi íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. KB banka væri heiður sýndur með því að fá tækifæri til þess að taka þátt í því að efla íþróttir fatlaðra hér á landi Samningur KB banka og Íþróttasambands Fatlaðra gildir fram yfir Ólympíumót fatlaðra í Peking 2008. Á meðfylgjandi mynd eru Friðrik Halldórsson, framkvæmdastjóri viðskiptabanksviðs KB banka (t.v.) og Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður Íþróttasambands Fatlaðra við undirritun samningsins |