Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 13. maí 13:09

Stjórnarfundur Nord-HIF og landskeppni í borðtennis

Í apríl sl. var haldinn stjórnarfundur Nord-HIF sem eru samtök íþróttasambanda fatlaðra á Norðurlöndum.
Fundurinn var haldinn í Færeyjum í tengslum við 25 ára afmæli færeyska sambandsins - Itrottasambandið fyri Brekað.
Nord-HIF samtökin voru stofnuð hér á landi 1976 með það að markmiði að auka samvinnu og samstöðu Norðurlandanna á hinum ýmsu sviðum sem lúta að íþróttum fatlaðra. Meðal þeirra mála sem til umræðu voru á fundinum í Færeyjum voru staða íþrótta þroskaheftra á Norðurlöndum, Norðurlandamót framtíðarinnar auk ýmissa alþjóðamála.
Í hófi sem haldið var í tilefni afmælis færeyska sambandsins færði SÁL þeim að gjöf málverk eftir listakonuna Auði Ólafsdóttur.
Þá var í tengslum við þennan afmælisfund haldin landskeppni Íslands og Færeyja í borðtennis. Til að efla og vekja athygli á borðtennisíþróttinni hafði færeyska sambandið óskað eftir aðstoð Íslands í því efni. Þannig myndu íslensku keppendurnir, auk þátttökunnar í landskeppninni æfa með hinu færeyska borðtennisfólki.
Íslensku keppendurnir þau Sunna Jónsdóttir, Ösp, Gyða Guðmundsdóttir, Ösp og Tómas Björnsson, ÍFR sigruðu alla sína andstæðinga og voru á allan hátt landi og þjóð til sóma. Einnig er vert að geta framlags Helga Gunnarssonar, landsliðsþjáfara ÍF í borðtennis, sem miðlaði Færeyingum af reynslu sinni sem borðtennisþjálfari til margra ára.